Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rimlahlið á mörkum varnarsvæða fjarlægt án samráðs

Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson
Yfirdýralæknir hefur beðið sveitarstjóra Húnaþings vestra afsökunar að rimlahlið sem aðskilur varnarsvæði búfjársjúkdóma hafi verið fjarlægt án vitundar sveitarfélagsins. Hliðið verði sett aftur upp í vor og lágmarksáhætta sé á að fé fari á milli hólfa á meðan.

Fréttastofa greindi frá því í ágúst að Vegagerðin áformaði að fjarlægja þrjú rimlahlið, tvö í Húnaþingi vestra og eitt í Skagafirði. Sveitarfélögin gagnrýndu áformin og sagði Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofun, að það gerð hefðu verið mistök og hliðin verði ekki fjarlægð.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra, brá hins vegar í brún í gær þegar hún varð þess vör að búið væri að fjarlægja hliðið milli Miðfjarðarhólfs og Vatnsneshólfs. Enginn hafi haft samband við fulltrúa sveitarfélagsins.

„Þetta kom okkur verulega á óvart að ristarhliðið var fjarlægt, án samráðs við okkur,“ segir Ragnheiður Jóna.

Mynd með færslu
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir. Mynd:
Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofun

Lágmarksáhætta á þessum árstíma

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofun, segir í samtali við fréttastofu að hliðið hafi tímabundið verið tekið niður fyrir veturinn og verði komið aftur upp í vor. Það sé fyrst og fremst vegna endurnýjunar, en hliðið sé hættulegt eins og það er núna og ógni umferðaröryggi. 

Sigurborg viðurkennir að sveitarstjórn á svæðinu hafi ekki verið upplýst um þetta eins og Ragnheiður benti á. Sigurborg segir það réttmæta gagnrýni og yfirsjón. Hún hafi þegar beðið Ragnheiði afsökunar, bæði munnlega og skriflega. 

Aðspurð hvort Matvælastofnun hafi ekki áhyggjur af því að varnarlínan sé þá óvarin, segir Sigurborg að þó fé sé ekki komið í hús sé það þó komið í heimahaga. Á þessum árstíma þurfi því ekki að hafa áhyggjur af því að fé fari þarna út á veg og á milli hólfa. Það sé í það minnsta lágmarksáhætta. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra.

Hefði mátt taka það mánuði seinna

Ragnheiður Jóna sveitarstjóri segist skilja rökin að endurnýjunar hafi verið þörf, en spyr sig þó af hverju þessi tímapunktur hafi verið valinn.

„Við skiljum það alveg, ristarhliðið var ónýtt. Það þurfti að taka það, en fé er ekki komið á hús. Það hefði mátt taka það upp mánuði seinna til dæmis, þannig að fé væri komið á hús og hættan minni,“ segir Ragnheiður Jóna.

Sigurborg segir að ekki sé búið að ákveða hvort hin rimlahliðin tvö sem fjallað var um í ágúst verði tekin upp nú eða ekki, en ljóst sé að endurnýjunar sé þörf.

Segir riðutilfelli undirstrika mikilvægi svæðanna

Ólafur Benediktsson, bóndi í Miðhópi í Húnaþingi vestra, segir mjög slæmt að búið sé að taka hliðið niður.

„Ég skil alveg að það þurfi að gera við ristarhliðið, það á sinn líftíma eins og annað. En þetta er gert á sama degi og það kemur upp riðutilfelli norður í Skagafirði. Ég treysti því að það verði komið nýtt hlið þarna í vor, síðasta lagi fyrsta maí þegar fé fer aftur á beit,“ segir Ólafur í samtali við fréttastofu.

Hann segir það skjóta skökku við að hliðið sé tekið niður á sama tíma og greint er frá því að grunur sé um riðu á bæ í Akrahreppi í Skagafirði. Hann segir slíkar fréttir undirstrika mikilvægi varnarsvæðanna.

„Ekki spurning. Að hafa girðingarnar þannig að þær haldi. Ristarhliðin er stór hluti af því. Það verður bara að búa til ristarhlið þannig að þau þoli nútímaumferð. Hanna þau með það í huga,“ segir Ólafur.