Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ragnar Þór býður sig fram í embætti varaforseta ASÍ

17.10.2020 - 04:38
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, býður sig fram til embættis varaforseta ASÍ á þingi sambandins í næstu viku. Morgunblaðið greinir frá og hefur eftir Ragnari sjálfum. Til stendur að fjölga varaforsetum sambandsins úr tveimur í þrjá, samkvæmt tillögu miðstjórnar ASÍ sem lögð verður fram á þinginu. Samhliða því verður meðstjórnendum fækkað um einn, úr tólf í ellefu.

Í samtali við Morgunblaðið segist Ragnar vona að framboð sitt verði „hluti af þeirri vegferð að þétta raðirnar.“ Samstaða verkalýðshreyfingarinnar hafi aldrei verið mikilvægari en nú, enda stór og mikil viðfangsefni við að fást sem varða hag einstaklinga og heimila. Þá þurfi samfélagið að vera samstiga á tímum kórónaveirukreppunnar.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, er 1. varaforseti ASÍ og Sólveig Anna Jónsdóttir 2. varaforseti. Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að þau ætli bæði að gefa kost á sér til áframhaldandi setu.