Öll unglingadeildin í Austurbæjarskóla í sóttkví

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Yfir hundrað nemendur í unglingadeild Austurbæjarskóla þurfa að fara í sóttkví eftir að nemandi greindist með kórónuveiruna. Þetta kemur fram í orðsendingu til foreldra frá skólastjóra skólans. Nemendurnir voru settir í úrvinnslusóttkví í gær á meðan unnið var að smitrakningu.

Sóttkvíin gildir til og með 20. október. Í tölvupóstinum segir að búið sé að kortleggja smitleiðir og samskipti nemandans sem var smitaður. Þegar því var lokið var talið líklegt að nemendurnir hefðu verið útsettir fyrir smiti.

Í póstinum kemur jafnframt fram að foreldri eða forráðamaður barns þurfi að vera með barninu í sóttkví nema annað sé tekið fram. Einungis barnið er þá skráð í sóttkví en ekki forráðamaðurinn.  Barnið fær þannig boð í sýnatöku en forráðamaðurinn ekki. 

Þetta mun ekki eiga við um foreldra barna í unglingadeildinni.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi