Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Nýtt Íslandsmet hjá Hlyni á HM í hálfu maraþoni

Mynd með færslu
 Mynd: FRÍ

Nýtt Íslandsmet hjá Hlyni á HM í hálfu maraþoni

17.10.2020 - 12:18
Heimsmeistaramótið í hálfu maraþoni fór fram í morgun í Póllandi og voru fjórir íslenskir keppendur á meðal þátttakenda. Hlynur Andrésson setti nýtt Íslandsmet í hlaupinu og Andrea Kolbeinsdóttir bætti sinn besta tíma í greininni.

Þær Andrea Kolbeinsdóttir og Elín Edda Sigurðardóttir hlupu af stað klukka níu í morgun. Andrea kom í mark á tímanum 1:17:07 og er það hennar besti árangur í hálfu maraþoni. Sá tími skilaði Andreu í 89. sæti mótsins í dag. Elín Edda kom í mark nokkrum mínútum siðar á tímanum 1:24:20 og endaði hún í 101. sæti mótsins. 

Hjá konunum var Peres Jepchirchir frá Kenýa fyrst í mark á tímanum 1:05:16 og var hún því ansi nálægt því að setja nýtt heimsmet. Hin þýska Melat Yisak Kejeta var í öðru sæti á 1:05:18 sem er nýtt landsmet og Yalamzerf Yehualaw frá Eþíópíu var í þriðja sæti á 1:05:19. Því var mjög mjótt á munum á milli þriggja efstu keppenda en aðeins munaði þremur sekúndum á Jepchirchir í fyrsta sæti og Yehualaw í því þriðja.

Hjá körlunum voru einnig tveir keppendur frá Íslandi. Hlynur Andrésson hljóp vegalengdina á 1:02:47 sem er nýtt Íslandsmet og var hann í 52. sæti. Arnar Pétursson varð hinsvegar að hætta keppni eftir að hafa hlaupið rúmlega 10 kílómetra. 

Jacob Kiplimo frá Úganda kom fyrst í mark hjá körlunum á 58:49 sem er nýtt mótsmet. Kibiwott Kandie frá Kenýa var í öðru sæti á 58:54 og Amedework Walelegn var í þriðja sæti á 59:08.

Tengdar fréttir

Frjálsar

Fremstu langhlauparar landsins keppa á HM í Póllandi