Maður skotinn til bana í Södertälje

17.10.2020 - 05:24
Mynd með færslu
 Mynd: M. Nilsson - SVT
Maður var skotinn til bana í bænum Södertälje, suður af Stokkhólmi, í nótt og annar maður særðist í skotárás í bænum fyrr um kvöldið. Lögregla var kölluð út um klukkan hálf þrjú í nótt að staðartíma þegar maður fannst liggjandi í blóði sinu, alvarlega særður. Var hann fluttur á sjúkrahús með hraði, þar sem hann lést af sárum sínum skömmu síðar.

Vettvangur brotsins var girtur af og rannsakaður í þaula á meðan lögregla leitaði vitna og grunaðra, meðal annars með þyrlu. Tveir menn hafa verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins.

Önnur árás fyrr um nóttina

Nokkru fyrr, laust fyrir eitt í nótt að staðartíma, barst lögreglu tilkynning frá sjúkrahúsi bæjarins vegna manns sem þangað kom vegna skotsárs. Einn maður var handtekinn í tengslum við rannsókn þessa máls. Lögregla kannar hvort mögulegt samband sé á milli árásanna en segir allt of snemmt að segja af eða á um slíkt. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi