Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Kvartar til umboðsmanns vegna „yfirgangs“ borgarinnar

17.10.2020 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Rúnar Ingi Garðarsson
Mosfellsbær hefur sent kvörtun til umboðsmanns Alþingis þar sem kvartað er undan stjórnsýslu Reykjavíkurborgar á Esjumelum. Bæjarráð Mosfellsbæjar samþykkti á fundi sínum bókun þar sem þeim „yfirgangi sem Reykjavíkurborg hefur sýnt Mosfellingum,“ er harðlega mótmælt. Bærinn hefur einnig kært þá ákvörðun borgarinnar að breyta deiliskipulagi á Kjalarnesi vegna lóðar fyrir Malbikunarstöðina Höfða.

Kvörtun bæjarfélagsins til umboðsmanns var lögð fram á fundi bæjarráðs. Þar eru einnig gerðar athugasemdir við að úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála skuli hafa komist að þeirri niðurstöðu að bærinn ætti ekki aðild að kærumáli tengdum þessum breytingum. Bærinn hefur nú sent aðra kæru ásamt nokkrum úr stjórn íbúasamtaka.

Í kvörtun bæjarins til umboðsmanns kemur fram að hún snúi að breytingu á deiliskipulagi Esjumela sem Mosfellsbær telur ekki í samræmi við skilgreinda landnotkun í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkurborgar. Deilan snýst um hvort heimilt sé að breyta stórum hluta athafnasvæðis borgarinnar á Esjumelum í iðnaðarsvæði.   

Mosfellsbær segir stóran mun á þessu tvennu - iðnaðarsvæði gerir ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem er talin geta haft mengun í för með sér. Lítil hætta er hins vegar talin á mengun af starfsemi á athafnasvæði.

Mosfellsbæ bendir á að sveitarfélagið hafi augljósa hagsmuna að gæta. Esjumelar séu meðal annars í nágrenni við íbúðabyggð og svæði á náttúruminjaskrá sem séu innan marka Mosfellsbæjar. Þá kunni mengun og aukin umferð vörubíla og stórvirkra vinnuvéla frá iðnaðarsvæði takmarkað möguleika bæjarins á uppbyggingu þeirra svæða sem standi næst Esjumelum. Ótalin séu þau sjónrænu áhrif sem fylgi malbikunarstöðvum og annarri mengandi iðnaðarstarfsemi „rétt utan við bæjardyr Mosfellsbæjar.“

Nýja kæran til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála var einnig lögð fram á fundi bæjarráðs.  Hún snýr að lóð undir Malbikunarstöðina Höfða á Kjalarnesi. Þar er borgin sögð vinna markvisst að því að færa mengandi iðnað frá íbúðabyggð og einn liður í því sé að flytja hann á Esjumela án þess að taka tillit til íbúa þar.

Borgin hafi einhliða tekið ákvörðun um heimila mengandi iðnað skammt frá heimilum og náttúruperlum og ekki gefið íbúum kost á að tjá hug sinn.

Í bókun sem samþykkt var á fundi bæjarráðs kemur fram að Mosfellsbær telji þessi áform borgarinnar á Esjumelum á skjön við skipulagsreglugerð. Bæjarfélagið ætli að leita allra leiða til að gæta hagsmuna Mosfellsbæjar og yfirgangi borgarinnar harðlega mótmælt.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV