Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kosið á Nýja Sjálandi: Ardern næsta örugg um sigur

17.10.2020 - 01:46
epa08746157 New Zealand Prime Minister Jacinda Ardern arrives at Auckland’s Civic Theatre to witness a preview of Mary Poppins ahead of the Musical’s opening on Friday night, in Auckland, New Zealand, 15 October 2020.  EPA-EFE/BEN MCKAY  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Þingkosningar standa nú yfir á Nýja Sjálandi og fátt bendir til annars en að Verkamannaflokkurinn, með forsætisráðherrann Jacindu Ardern í fylkingarbrjósti, muni vinna öruggan sigur. Flokkurinn hefur raunar misst nokkuð fylgi síðustu daga ef marka má nýjustu skoðanakannanir, en mun engu að síður geta myndað meirihlutastjórn einn og óstuddur, gangi þær eftir.

Í könnun sem birt var í gær sögðust 45,8 prósent ætla að kjósa Verkamannaflokkinn, 4,3 prósentustigum færri en í næstu könnun á undan, en 31,1 prósent aðspurðra sögðust ætla að kjósa Verkamannaflokkinn. Kjörstaðir voru opnaðir klukkan níu á laugardagsmorgni að staðartíma, klukkan átta á föstudagskvöld að íslenskum tíma.

Nær helmingur kjósenda hefur þegar kosið utan kjörfundar

Metfjöldi kjósenda hefur þegar greitt atkvæði utan kjörfundar, eða 1,7 milljónir þeirra 3,5 milljóna sem eru á kjörskrá. Upphaflega stóð til að halda kosningarnar 19. september en þeim var frestað þegar fátítt COVID-19 hópsmit kom upp í Auckland.

Staða Ardern feikilega sterk

Þingmenn eru kosnir til þriggja ára í senn og Jacinda Ardern hefur verið forsætisráðherra í stjórn Verkamannaflokksins og mið-hægri þjóðernisflokkinn Nýja Sjáland fyrst síðustu þrjú ár. Framganga hennar í eftirleik mannskæðrar hryðjuverkaárásar ástralsks rasista og hægri-öfgamanns á tvær moskur í Christchurch á síðasta ári og í baráttunni við COVID-19 á þessu ári hefur styrkt stöðu hennar mjög meðal nýsjálenskra kjósenda og mun hún vafalaust fá umboð þeirra til að stjórna landinu áfram næstu þrjú árin, án aðkomu annarra flokka.

Kosið um kannabis og dánaraðstoð

Samhliða þingkosningunum fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um lögleiðingu tveggja afar ólíkra fyrirbæra; dánaraðstoðar og sölu og neyslu kannabisefna. Búist er við að úrslit þingkosninganna liggi nokkurnveginn fyrir áður en laugardagurinn er á enda runninn, en niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslnanna verða ekki kynntar fyrr en 30. október.