Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Komu í veg fyrir stórbrúðkaup í New York

17.10.2020 - 21:38
epa08754015 A person dressed as President Trump (L) gestures at a man with a sign making false claims about the ongoing coronavirus pandemic as people gather for a Women’s March, organized to show opposition to the Trump administration’s policies and the filing of the late Justice Ruth Bader Ginsberg’s seat on the US Supreme Court, in New York, New York, USA, 17 October 2020. Similar marches organized by the group that put together the Women’s March in Washington DC in 2017 are being held around the country today.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í New York hafa fyrirskipað að brúðkaupi sem fyrirhugað var á mánudag verði aflýst. Talið er að allt að tíu þúsund manns hafi ætlað að fagna með tilvonandi brúðhjónum í tilefni dagsins - þvert á allar sóttvarnareglur.

Ríkisstjórinn Andrew Cuomo greindi frá því á fréttamannafundi í dag að yfirvöld hefðu komist á snoðir um stórbrúðkaupið sem halda átti í Brooklyn. Aðeins 50 mega koma saman í New York vegna fjöldatakmarkana og þá mega viðburðir á vegum trúfélaga, á borð við brúðkaup, aðeins taka við 33 prósent af leyfilegum heildarfjölda gesta. Ljóst er að tíu þúsund manna brúðkaup hefði þverbrotið það.

„Þú mátt alveg gifta þig, en þú mátt bara ekki bjóða þúsundum saman í brúðkaupið. Niðurstaðan verður sú sama án þeirra hvort sem er - auk þess sem það er ódýrara,“ sagði Cuomo.

New York fór afar illa út úr faraldrinum í vor og nærri 25 þúsund dauðsföll eru rakin til COVID-19. Staðan hafði batnað samhliða hörðum aðgerðum, en íbúar virðast vera farnir að slaka meira á og aukinn fjöldi jákvæðra sýna hefur greinst undanfarið.