Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hvað er nýja stjórnarskráin?

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Baráttufólk fyrir nýrri stjórnarskrá vonast margt til að hún komist á dagskrá fyrir Alþingiskosningarnar að ári. Prófessor í stjórnskipunarrétti segir að búið sé að hafna því að tillögur stjórnlagaráðs verði samþykktar í einu lagi.

Stjórnarskráin er á allra vörum þessa dagana. Hópar og einstaklingar hafa sett hana á dagskrá með mjög áberandi hætti, á samfélagsmiðlum og í opinberu rými, og sérstök áhersla hefur verið lögð á að vekja ungt fólk til vitundar um stjórnarskrármálið.

„Ég held að þetta tengist mjög áhuga hópsins á loftslagsmálum,“ segir Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins. „Í nýju stjórnarskránni eru gríðarlega sterk náttúruverndarákvæði sem skortir mjög í okkar samfélagssáttmála.“

Nýlegir gjörningar hafa vakið enn meiri athygli á baráttunni fyrir nýrri stjórnarskrá, ekki síst eftir að starfsmenn stjórnarráðsins þvoðu af veggjakrot með spurningunni: Hvar er nýja stjórnarskráin? 

Hvar er nýja stjórnarskráin?

„Stutta svarið er að það er ekki til ný stjórnarskrá,“ segir Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands. „En það eru til tillögur að nýrri stjórnarskrá sem voru samþykktar vorið 2012 af stjórnlagaráði.“

Stjórnarskrárfélagið vinnur að því að safna undirskriftum þar sem þess er krafist að Alþingi virði niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 og lögfesti nýju stjórnarskrána. Undirskriftirnar nálgast óðum 40.000. 

„Fólk er í raun og veru að skrifa upp á frekar afdráttarlausa kröfu um að niðstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði fylgt og Alþingi láti okkur ekki bíða í áratug í viðbót með að fá nýja stjórnarskrá sem grundvölluð er á drögum stjórnlagaráðs,“ segir Katrín.

En er þetta svo einfalt?

Þrjár útgáfur 

Til eru þrjár útgáfur af tillögum að nýrri stjórnarskrá. Sú fyrsta var samþykkt af stjórnlagaráði 2011 og afhent Alþingi. Önnur útgáfan varð til eftir að sérfræðingahópur Alþingis lagaði drögin og útbjó frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga 2012. Þriðja útgáfan varð síðan til í meðförum Alþingis 2013. Frumvarpið fór ekki í gegnum þingið.

Hvað af þessum plöggum er það sem liggur til grundvallar?

„Ég myndi telja að fólk væri að skrifa undir drög Stjórnlagaráðs, og þau yrðu lögð til grundvallar,“ segir Katrín.

Björg minnir hins vegar á að Alþingi hafi afgreitt málið: „Það er búið að hafna því að samþykkja heildstæða stjórnarskrá á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs. Þess vegna tel ég skynsamlegt að gera eins og verið er að gera núna, að taka einstaka þætti sem fjallað er um í tillögum stjórnlagaráðs og líka var kosið um í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og ákvæði um auðlindir og umhverfismál og slíkt.“

Umdeild þjóðaratkvæðagreiðsla

Þetta er sú vinna sem forsætisráðherra hefur lagt í með fjórum frumvörpum til stjórnskipunarlaga. Hún hefur reynt að ná samkomulagi með öðrum formönnum stjórnmálaflokka á þingi, en það hefur gengið erfiðlega. Hún stefnir að því að leggja frumvörpin fram sem þingmaður í næsta mánuði.

Tveir af hverjum þremur kjósendum samþykktu tillögur stjórnlagaráðs í þjóðaratkvæðagreiðslunni. En hún var umdeild, og færri en helmingur kjósenda mætti á kjörstað. Síðan hefur þrisvar sinnum verið kosið til þings, án þess að nýja stjórnarskráin hafi fengið brautargengi. 

Er ekki eðlilegt að Alþingi og kjósendur í gegnum Alþingi fái að ákveða þetta?

„Jú, en við vitum að Alþingiskosningar snúast sjaldnast um stjórnarskrármál,“ segir Katrín. „Þjóðin hefur bara einu sinni verið spurð með einangruðum hætti um þetta mál, hún svaraði með skýrum hætti, þau sem mættu á kjörstað.“

Stjórnarskrármálið er ekki einfalt. Við getum ekki breytt stjórnarskránni nema í samræmi við hennar eigin reglur. Og Alþingi, sem þarf að taka ákvörðun um breytingar, er kosið samkvæmt gömlu reglunum. Því er rétt að spyrja hvort Alþingi sé yfirleitt rétta stofnunin til gera breytingar á sínum eigin grundvallarreglum?

„Ja, það er bara endapunktur lýðræðisins,“ segir Björg. „Við kjósum fulltrúa lýðræðisins á þingið til að taka ákvarðanir fyrir þjóðina, og við kjósum fulltrúa á þeim grunni að þeir standi fyrir einhver sjónarmið. Það er eiginlega enginn annar vettvangur sem stendur við hliðina á þessum vettvangi í lýðræðislegu þjóðfélagi.“