Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Franska kennaranum höfðu borist margar hótanir

17.10.2020 - 09:52
epa08751931 Teenagers arrive to lay flowers in front of Bois d'Aulne middle school to pay their respect after a teacher was assassinated in Conflans Saint-Honorine, outside Paris, France, 17 October 2020. On 16 October a school teacher was decapitated by a 18-year-old attacker who has been shot dead by policemen. The man who was decapitated was a history teacher who had recently shown caricatures of the Prophet Mohammed in class.  EPA-EFE/YOAN VALAT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Árásarmaðurinn sem myrti kennara í París í gær er sagður hafa verið átján ára téténi, fæddur í Moskvu. Kennarinn, sem hafði sýnt skopmyndir af Múhammeð spámanni í kennslustund, var hálshöggvinn við skólann sem hann starfaði í. Honum hafði borist fjöldi hótana síðustu daga.

Árásin var gerð síðdegis í gær, um klukkan þrjú að íslenskum tíma, í einu úthverfa Parísarborgar Conflans-Sainte-Honorine. Árásarmaðurinn flúði af vettvangi eftir ódæðið en lögreglumenn náðu honum skammt frá. Þar réðist hann að lögreglumönnum með eggvopni og var skotinn til bana. Emmanuel Macron Frakklandsforseti ræddi við starfslið skólans í gærkvöld. Kennarinn hafði rætt við nemendur um skopmyndir af Múhammeð og birtingu þeirra í tímaritum, sem Macron sagði heilbrigða umræðu um tjáningar- og trúfrelsi. Macron kallar þetta hryðjuverkaárás íslamista, en árásarmaðurinn var Tétjeni búsettur í París. 

Níu eru í haldi lögreglu vegna málsins, þar á meðal foreldrar barns í skólanum sem eru sagðir hafa lýst óánægju sinni með umræður kennarans um Múhameð. Skopmyndir og birtingar þeirra í fjölmiðlum hafa verið nokkuð til umræðu í Frakklandi undanfarið en réttarhöld vegna Charlie Hebdo árásanna 2015 hófust í París í september. Myndir af Múhameð sem tímaritið birti voru kveikjan að ódæðisverkunum. Og þær hafa verið tilefni fleiri árása. Rétt fyrir mánaðamót voru tveir stungnir fyrir utan ritstjórnarskrifstofur blaðsins, en árásarmaðurinn taldi að þeir væru starfsmenn franska skoptímaritsins.