Það er vitað mál að flugur laðast af óhreinindum, að þær eru sérstaklega hrifnar af skít og svo birtast þær oft eins og úr lausu lofti á skemmdum mat, svo það er kannski ekki skrítið að þær séu tengdar við dauða og rotnun.
Grikkir heilluðust af líffræði skordýra, sérstaklega ummyndunum, og í grísku þýðir psyche bæði fiðrildi og sál. Í mósaíkverkum Markúsarkirkjunnar í Feneyjum frá 13. öld, þar sem sköpunarsagan er rakin, blæs guð almáttugur sálinni í Adam með því að setja örsmáa vængjaða manneskju inn í hann.
Á miðöldum er bestu listaverkin oft að finna í bókum; handritum og sálmabókum þar sem smágerðar brjóstmyndir og myndskreytingar skreyta spássíur síðnanna. Þar birtast oftar en ekki hinar ýmsu tegundir flugna. Venjulegar flugur, sem við köllum fiskiflugur, táknuðu okkar örstuttu jarðvist, en fiðrildi og drekaflugur voru tákn eilífðarinnar, sálarinnar sem lifir áfram eftir að líkaminn deyr.
Með tilkomu olíulita og þrívíddar fær flugan svo enn annan tilgang, en þá fara listamenn að nota hana sem tæki til að sýna hæfileika sína. Samkvæmt hinum flórenska Filarete átti Giotto að hafa málað flugu á svo sannfærandi hátt að meistari hans og lærifaðir reyndi að blása henni af striganum.
Á fimmtándu öld myndaðist norðar í álfunni áhugaverð hefð fyrir portrettum með flugum. Á þeim má til dæmis sjá konur með hvíta barðastóra hatta þar sem stundum sátu flugur. Ein slík, Portrett af konu úr Hofer-ættinni, er frá sama tíma og flæmska verkið af munkinum sem minnst var á hér í upphafi. Rannsóknir á þessum verkum hafa sýnt að oftar en ekki var flugan máluð á verkið nokkru eftir að það var málað, sem gefur í skyn að flugunni, tákni dauðans, hafi verið bætt á hattinn eftir að konan lést.
Skordýr áttu ekki svo greiða leið í málverk kaþólskunnar þar sem dýrlingar og biblíusögur kenndu lýðnum að lifa undir ægivaldi páfa, en þau fengu nýtt líf og oft á tíðum aðalhlutverk í Norður-Evrópu eftir siðaskiptin. Biblíusögur viku fyrir hversdagsleikanum, eða færðu sig inn í hversdaginn, og ört vaxandi stétt ríkra kaupmanna fékk listamenn til að mála sig sjálfa og sín ríkulegu híbýli.