Forsetakappræður og tilgangsleysi lífsins

Mynd: . / Samsett mynd

Forsetakappræður og tilgangsleysi lífsins

17.10.2020 - 12:15

Höfundar

Djöflar og tilgangsleysi lífsins eru ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar kappræður varaforsetaefna eiga í hlut. Það breyttist þó í síðustu viku þegar fluga flaug inn á sviðið og settist á höfuð Mike Pence.

Á Metropolitan-safninu í New York hangir uppi eitt af þekktari verkum flæmsku endurreisnarinnar, Portrait of a Carthusian, eftir Petrus Christus. Verkið er olíumálverk frá árinu 1446 og er brjóstmynd af skeggjuðum munki í hvítum kufli.  Af nákvæmu raunsæi er munkurinn listilega vel málaður þar sem hann situr yfirvegaður og horfir í augu áhorfandans. Það er samt ekki augnaráðið, dramatísk birtan og dýptin, raunsæislegir skuggarnir í kuflinum eða ótrúleg nákvæmni skeggsins sem fangar athyglina, heldur er það feit fiskifluga sem situr á máluðum viðarramma sem umlykur munkinn og rammar þetta annars friðsæla verk inn. 

Mynd með færslu
 Mynd: wikiart
Petrus Christus, Portrait of a Carthusian, 1446.

Flugan er ein sú frægasta í listasögunni, einmitt vegna þeirrar sjónhverfingar sem hún skapar. Slíkar sjónhverfingar þekkjast frá tímum Rómverja en urðu sérstaklega vinsælar á 15. öld og margar þeirra voru gerðar í formi flugu á striga. Flugur á striga voru þó ekki einungis gerðar til að blekkja, eða trufla áhorfandann, og sýna um leið einstaka hæfni listamannsins, heldur gátu þær einnig verið tákn og oftar en ekki táknar flugan hverfulleika tilverunnar, dauðann eða jafnvel djöfulinn sjálfan.

Dauði og djöfull er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar amerískar forsetakappræður eiga í hlut. Það breyttist þó í síðustu viku, þegar fluga flaug inn á sviðið, og beinustu leið inn í glerbúrið þar sem Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna kepptist við að sannfæra áhorfendur um ágæti Trumps og félaga. Þar settist flugan á höfuð varaforsetans og kom sér vel fyrir í hvítu og vel snyrtu hárinu, og sat í dágóðan tíma, milljónum áhorfenda til mikillar skemmtunar. Samfélagsmiðlar fóru auðvitað á hliðina og pólitískir álitsgjafar áttu erfitt með að ræða annað en fluguna í fjölmiðlum. Joe Biden var ekki lengi að sjá sér leik á borði, mætti á Twitter og sagðist myndu fljúga í gegnum þessa baráttu og tveimur tímum síðar voru herbúðir hans farnar að selja áletraða flugnaspaða. 

Mynd með færslu
 Mynd: wikiart
Unknown, Portrait of a Woman of the Hofer Family, c. 1470

Flugan stal senunni, og þar sem hún sat á hvíthærðum kollinum var óneitanlega eins og flugan vissi nákvæmlega hvað hún væri að gera, hingað væri hún komin til að færa áhorfendum skilaboð, draga athyglina frá einum valdamesta manni heims og minna okkur, áhorfendur, á eitthvað allt annað. Hver eru skilaboðin og hvað þýðir þetta allt saman? Sjaldan hefur frasinn að lífið hermi eftir listinni verið meira viðeigandi. Skyndilega umbreyttist vel snyrtur pólitíkusinn, sem nota bene hafði verið stillt upp í glerbúri vegna sýkingarhættu, í merkingarhlaðinn líkama, og ofan á kappræðurnar lögðust mörg lög af nýjum merkingum. 

Mynd með færslu
 Mynd: wikiart
Giovanna Garzoni, Still Life with Bowl of Citrons, c.1640

Flugur eru tíðir gestir í listasögunni og þá oftast hlaðnar frekar neikvæðri merkingu. Merkingu sem á rætur að rekja í biblíusögur, þar sem flugan getur birst sem tákn syndar og  spillingar. Eitt elsta dæmið um flugur í neikvæðri merkingu er að finna í annarri Mósebók í Biblíunni, sem oft hefur verið notuð sem sagnabrunnur listamanna, en þar sendir himnaguðinn flugnasveim til jarðar í refsingarskyni. Og svo er það hinn vængjaði djöfull Belsíbúbb, konungur flugnanna, sem einnig á sinn stað í listasögunni og birtist þá oftar en ekki sem fluga. 

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia
Giovanna Garzoni, Dog with a Biscuit and a Chinese Cup, c.1640

Það er vitað mál að flugur laðast af óhreinindum, að þær eru sérstaklega hrifnar af skít og svo birtast þær oft eins og úr lausu lofti á skemmdum mat, svo það er kannski ekki skrítið að þær séu tengdar við dauða og rotnun.

Grikkir heilluðust af líffræði skordýra, sérstaklega ummyndunum, og í grísku þýðir psyche bæði fiðrildi og sál. Í mósaíkverkum Markúsarkirkjunnar í Feneyjum frá 13. öld, þar sem sköpunarsagan er rakin, blæs guð almáttugur sálinni í Adam með því að setja örsmáa vængjaða manneskju inn í hann. 

Á miðöldum er bestu listaverkin oft að finna í bókum; handritum og sálmabókum þar sem smágerðar brjóstmyndir og  myndskreytingar skreyta spássíur síðnanna.  Þar birtast oftar en ekki hinar ýmsu tegundir flugna. Venjulegar flugur, sem við köllum fiskiflugur, táknuðu okkar örstuttu jarðvist, en fiðrildi og drekaflugur voru tákn eilífðarinnar, sálarinnar sem lifir áfram eftir að líkaminn deyr. 

Með tilkomu olíulita og þrívíddar fær flugan svo enn annan tilgang, en þá fara listamenn að nota hana sem tæki til að sýna hæfileika sína. Samkvæmt hinum flórenska Filarete átti Giotto að hafa málað flugu á svo sannfærandi hátt að meistari hans og lærifaðir reyndi að blása henni af striganum. 

Á fimmtándu öld myndaðist norðar í álfunni áhugaverð hefð fyrir portrettum með flugum. Á þeim má til dæmis sjá konur með hvíta barðastóra hatta þar sem stundum sátu flugur. Ein slík, Portrett af konu úr Hofer-ættinni, er frá sama tíma og flæmska verkið af munkinum sem minnst var á hér í upphafi.  Rannsóknir á þessum verkum hafa sýnt að oftar en ekki var flugan máluð á verkið nokkru eftir að það var málað, sem gefur í skyn að flugunni, tákni dauðans, hafi verið bætt á hattinn eftir að konan lést. 

Skordýr áttu ekki svo greiða leið í málverk kaþólskunnar þar sem dýrlingar og biblíusögur kenndu lýðnum að lifa undir ægivaldi páfa, en þau fengu nýtt líf og oft á tíðum aðalhlutverk í Norður-Evrópu eftir siðaskiptin. Biblíusögur viku fyrir hversdagsleikanum, eða færðu sig inn í hversdaginn, og ört vaxandi stétt ríkra kaupmanna fékk listamenn til að mála sig sjálfa og sín ríkulegu híbýli.

Mynd með færslu
 Mynd: wikiart
Vanitas

Dýrlingamyndir voru bannaðar í löndum mótmælenda en það þýddi samt ekki að táknheimur kristindómsins hyrfi úr verkunum. Syndug jarðvist, dauði, rotnun og upprisa héldu áfram að vera það sem heillaði mest. Holland varð með tímanum aðalmiðstöð uppstillinga, olíumálverka af blómum, ávöxtum og skordýrum sem oftar en ekki voru lýst upp af dramatískri birtu á dökkum grunni og fjölluðu í raun um eitthvað allt annað en saklausa hluti, blóm eða dýr. Hvítar rósir og brauð voru líkami Krists, hvítar liljur María mey, valhnetur voru krossinn, vínber og vínglös blóð Krists, eplið var syndin, sítrónuviður tryggð en sítrónubörkur biturt lífið, granatepli frjósemi og apríkósur hin heilaga þrenning, svo eitthvað sé nefnt.

Á þessum tíma var mikil áhersla lögð á andstæður góðs og ills, ljóss og skugga, fegurðar og rotnunar. Okkar synduga jarðvist var táknuð með skríðandi skordýrum sem oft skriðu um borðið neðan við ávaxtaskál, matarbakka eða blómavasa. Flugur sveimuðu um ávexti eða blóm og minntu okkur á hversu stutt jarðvistin var, sem aftur var undirstrikað með fölnandi blómum. Fiðrildin flugu þó oftast ofan við blómin eða sátu á þeim, og minntu á að allt þetta jarðneska brauðstrit yrði endurgoldið með eilífu lífi eftir dauðann. Flugur á skemmdum ávöxtum mátti tengja við illsku og spillingu, jafnvel djöfulinn, því hvaðan komu annars þessi dýr sem löðuðust fyrst og fremst af rotnandi lífi? 

Með tímanum fóru þessi verk að minna æ meira á verk miðalda sem voru sérstaklega til þess gerð að minna fólk á dauðann, styttur af beinagrindum og hauskúpum, sem höfðu sprottið upp um alla álfuna í kjölfar svarta dauða. Memento mori má oftar en ekki sjá grafið eða málað á verkin; mundu dauðann! 

Þessi áhersla á dauðann og tilgangsleysi veraldlegra gæða varð æ sterkari í uppstillingunum, sérstaklega í Norður-Evrópu en breiddist svo út um alla álfuna. Hefðin er kölluð Vanitas, orð sem dregið er af latneska orðinu vanus, sem þýðir tómt, og vísar þannig í innantóma og tilgangslausa jarðvistina. Nú voru það ekki bara skordýr, flugur og visnuð blóm sem táknuðu stutta jarðvist og fallvaltleika lífsins heldur voru það einnig hauskúpur, útbrunnin kerti, stundaglös og sápukúlur sem bættust við táknheim kristninnar.

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia
Antonio Pereda, Vanitas

Nú voru fábrotnu mótmælendaborðin orðin drekkhlaðin lífsins ónauðsynlegu lystisemdum, munum sem ný borgarastétt skreytti híbýli sín með; postulín, silki, spil, hljóðfæri, tóbak, kort af heiminum, nótnablöð, gullpeningar og annar óþarfi sem fólk hélt kannski að gæfi lífinu lit en var í raun algjör óþarfi því ekkert af þessu kemur með í gröfina, eins og hauskúpan minnti svo rækilega á. Á bak við gardínur eða innflutta dúka gátu líka leynst apar sem höfðu sama djöfullega hlutverki að gegna og flugan.

En frá uppstillingum og táknmyndum barokksins yfir í glerbúrið á sviði varaforsetakappræðna síðustu viku. Dauði og djöfull er ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar slíkar kappræður eiga í hlut. Ekki vanalega, en það er svo sem ekkert vanalegt við tímana sem við lifum. Hér kemur fluga í beina útsendingu, svo ofurraunveruleg að hún virðist óraunveruleg, var þetta kannski sjónhverfing? Miðaldamaðurinn framan við munkinn efaðist í fyrstu en var svo skemmt þegar veruleikinn kom í ljós, allt í plati, flugan var bara máluð. Það er samt ekki reyndin hér, því hér er ekkert í plati, flugan er raunveruleg, sem og fólkið í leikmyndinni. Kappræðurnar eru ekkert djók þó þær virðist oft á tíðum vera það.

Ef flugan er ekki sjónhverfing þá hlýtur hún þó að þýða eitthvað. Það er að minnsta kosti auðvelt að sjá fluguna og pólitíkusinn í glerbúrinu sem áminningu um hverfulleika lífsins og vonleysi innantómra loforða gagnvart vandamálum heimsins. Truflun flugunnar minnir á aldagamla tækni listamanna sem vildu ekki bara trufla með nærveru flugunnar, heldur líka minna á endalokin og tilgangsleysi syndugrar jarðvistarinnar.  Jarðvistar sem á okkar tímum einkennist af hækkandi hitastigi, farsótt, jörð sem brennur og tegundum sem deyja út. Hljómar dáldið eins og biblíusaga og ekki síður ef við hendum inn í söguna verðandi valdhöfum sem hafa undir þessum kringumstæðum lítið annað til málanna að leggja en svarthvíta orðræðu góðs og ills. Dauði og djöfull eru kannski ekki skilaboðin en það er að minnsta kosti dimmur undirtónn efasemda í þessari flugu sem ruddist inn í leikmyndina og stal senunni, langþreyttum lýðnum til mikillar skemmtunar.

Tengdar fréttir

Myndlist

Hver gerir Trump ódauðlegan?

Myndlist

Gleymdar gyðjur súrrealismans

Umhverfismál

Boða stofnun nýs Bauhaus-skóla