Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Færir klassísku jólastjörnuna í nýjan búning

17.10.2020 - 19:20
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Birgir Steinn Birgisson, garðyrkjubóndi í Hveragerði hefur staðið í tilraunaræktun á síðustu mánuðum og klætt klassísku jólastjörnuna í nýjan búning. Meðal annars hvítar, gular og marglitar stjörnur fylgja þeirri rauðu sem flestir þekkja í verslanir í nóvember.

„Við ákváðum það eins og með þessa tegund hérna sem heitir J'adore á frönsku, að prufa hana því október er bleikur mánuður,“ segir Birgir og bendir á skærbleika jólastjörnu. „Og líka það að þessi litur er ofboðslega fallegur og þess vegna fékk hún þetta heiti J'adore og það þýðir ég elska þig, eða mér þykir vænt um þig, þú ert æðisleg.“

Þessi fyrsta tilraunaræktun seldist upp og Birgir segist vona að sú bleika sé komin til að vera. „Það er bara alveg frábært að gefa eina svona J'Adore, það væri ekki dónalegt að fá eina svoleiðis.“
- Skilaboðin væru skýr? „Mjög skýrt hvað það þýðir já.“

Segir óþarfa að óttast jólastjörnuna

Rauða jólastjarnan hefur í fjölda ára prýtt íslensk heimili í aðdraganda jóla en vinsældir hennar dvínuðu um tíma því sú saga gekk manna á milli að plantan væri baneitruð, þá sérstaklega ungum börnum og gæludýrum. Blöð plöntunnar innihalda mjólkursafa sem getur verið ertandi og valdið ofnæmisviðbrögðum en að sögn Birgis er ekkert að óttast og auk þess sé nánast öll ræktun lífræn án eiturefna. Tími sé kominn til að kveða mýtuna í kútinn.

„Þetta er einhver gömul vitleysa sem fór af stað einhvern tímann fyrir löngu síðan,“ segir Birgir.
Og þú ert með kött á vappi um plönturnar? Honum hefur ekki verið meint af?
Nei, nei alls ekki og hún sér bara um að halda hérna músum frá og öllu öðru - og er góður vinnumaður hérna.“

Birgi veitir ekki af liðstyrknum því pottaplöntur seljast nú sem aldrei fyrr. „Þetta er bara búið að vera mjög gaman að vera garðyrkjubóndi og þetta er ofboðslega mikil sala. Það er hálfgert æði í þjóðfélaginu ég verð bara að segja eins og er.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV