Erfið ákvörðun sem bíður KSÍ

Mynd: RÚV / RÚV

Erfið ákvörðun sem bíður KSÍ

17.10.2020 - 19:37
Guðni Bergsson segist reikna með ákvörðun frá KSÍ um framhald Íslandsmótsins eftir að auglýsing heilbrigðisráðherra um reglugerðir varðandi íþróttaiðkun á höfuðborgarsvæðinu birtist.

Ekkert verður leikið á Íslandsmótinu í fótbolta næstu tvær til þrjár vikur á meðan að hertar sóttvarnaraðgerðir eru í gildi á höfuðborgarsvæðinu. Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir stöðuna vera erfiða og sama hver niðurstaðan verði þá bíði KSÍ erfið ákvörðun með framhaldið.

„Það eru margir hagsmunir sem þarna togast á. Þetta er margþætt og erfið ákvörðun sem bíður okkar. Við erum að taka tillit til fyrst og fremst heilbrigðisreglna sem gilda núna, þar fyrir utan er staða félaganna, fjárhagsleg og aðstæðan hjá aðildarfélögunum okkar, heilbrigði og heilsa leikmanna og svo framvegis. Það er að mörgu að huga en það bíður okkar erfið ákvörðun og það er ljóst að við getum ekki gert öllum til geðs í þessu en við reynum auðvitað að undirbyggja ákvörðunina vel og gera okkar besta með því að ná skynsamlegri og sem bestri niðurstöðu,“ segir Guðni.

KSÍ hefur teiknað upp nokkrar mögulegar sviðsmyndir með framhald keppni á Íslandsmótinu. Sanngirni sé sambandinu ofarlega í huga en forsendur keppninnar séu gerbreyttar frá því sem var síðan að mótið hófst. 

„Þetta er orðið svo margþætt og það eru svo margar breytur í þessu miðað við ástand leikmanna og miðað við mótið eins og það var lagt upp með. Við erum búin að ljúka 80-90% af mótinu. Það er bara þannig að ef við förum og klárum mótið eða klárum leikina má segja að það séu dáltið mikið breyttar forsendur en var lagt upp með. Þetta er þriðja stöðvunin á mótinu sem við erum að fást við sem hefur gert okkur erfitt fyrir, en ég held þó að við höfum gert vel í að komast þetta langt. En við vildum gjarnan hafa náð að vera búin með þetta og klárað þetta allt. Það verður bara að koma í ljós hver ákvörðunin verður. Við reynum að vanda vel til hennar,“ segir Guðni.

Hann vill ekki útiloka að mismunandi reglur muni gilda eftir deildum hér á landi. 

„Ég vil ekki útiloka neitt á þessari stundu. Við erum að rýna þetta bæði mótanefndin og mótastjóri, starfsfólk KSÍ og stjórn KSÍ með aðildarfélögunum. Ég vil ekki útiloka neitt á þessari stundu. Við erum að fara yfir þetta um helgina en það verður gott þegar að auglýsingin birtist frá heilbrigðisráðherra. Síðan þegar líður á vikuna munum við auðvitað taka ákvörðun í þessu máli.“ segir Guðni.