Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Er þetta leikari eða alvöru górilla?“

Mynd: Samsett mynd / RÚV/Gorillas in the mist

„Er þetta leikari eða alvöru górilla?“

17.10.2020 - 13:05

Höfundar

„Það sem sat eftir í mér eftir myndina þegar ég sá hana fyrst var sorg,“ segir útvarps- og tónlistarkonan Valdís Eiríksdóttir um kvikmyndina Gorillas in the Mist sem sýnd verður í Bíóást á RÚV í kvöld.

Gorillas in the Mist kom út árið 1988 og byggir á raunverulegum atburðum þegar líffræðingurinn Dian Fossey, sem Sigourney Weaver leikur, rannsakaði fjallagórillur í Rúanda. „Svo horfði ég aftur á hana nýlega, og sorgin er enn þá til staðar en það bættust við margar aðrar tilfinningar,“ segir Valdís. „Ég upplifði reiði, gleði, þakklæti og lotningu. Þetta er útrúlega mögnuð mynd og stór skali tilfinninga sem maður fer í gegnum. Fyrir mér er það það sem aðskilur venjulega bíómynd frá kvikmyndaverki.“ Myndin snertir á náttúru- og dýravernd en líka mannlegu eðli. „Þetta var alvöru manneskja sem gerði þessa hluti og breytti því hvernig við horfum á górillur og villt dýralíf í dag. Svo er fallegt að sjá hvernig sterk kona á þessum tíma reis upp gegn mótlætinu og barðist fyrir því sem hún trúði á. Ég held að það sé eftir svona mynd sem margir ákveða að taka af skarið og hjálpa til við að breyta heiminum.“

Það sem Valdísi finnst einna merkilegast við myndina er hversu nálægt sannleikanum hún fer. „Maður sér manneskjuna sem gekk í gegn um þessa hluti, við sjáum líka neikvæðu hliðar hennar, hún var líka grimm, en hún þurfti að vera það. Við fengum raunverulegu manneskjuna og þjáninguna og erfiðið.“ Við tökur á myndinni lenti svo aðalleikkonan Sigourney Weaver í raunverulegri górilluárás. „Myndin var að hluta til tekin upp með alvöru raunverulegum górillum í þeirra náttúrulegu heimkynnum og hluta til með leikurum í búningum. Stundum var ég smá að efast, er þetta leikari eða alvöru górilla?“

Gorillas in the Mist er sýnd á RÚV kl. 19.50 í kvöld.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Einn af tindum 8. áratugarins sem hafði áhrif á Jóker

Kvikmyndir

„Enginn í þessari mynd er hetja“

Kvikmyndir

„Það ætlar enginn að gera neitt fyrir þessa drengi“

Kvikmyndir

Eðlilegt að brotna saman eftir mikið súkkulaðiát