Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Endurskoða námslán bakvarðarins

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn - rúv
Mál konu sem fékk skert námslán vegna vinnu í bakvarðasveit heilbrigðiskerfisins verður tekið aftur til umfjöllunar hjá Menntasjóði námsmanna. Menntamálaráðherra er vongóð um að lausn finnist á málinu, þannig að vinna við bakvarðasveitina skerði ekki lán nemenda.   

Í fréttum RÚV í gær sagði Ásta Kristín Marteinsdóttir að námslán hennar hefðu verið skert um helming vegna launa fyrir vinnu í bakvarðasveitinni og álagsgreiðslu til heilbrigðisstarfsfólks sem hún fékk. Ásta Kristín er menntaður sjúkraliði og stundar nám í lögfræði. Hún upplifir að sér hafi verið refsað fyrir að bjóða fram aðstoð í baráttunni við kórónuveiruna. 

Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra tekur undir að skerðing námslána á þessum forsendum skjóti skökku við.

„Bakvarðasveitin hefur gegnt alveg gríðarlega mikilvægu hlutverki og þess vegna er mjög mikilvægt að stjórnvöld sendi einmitt þau skilaboð að þau kunni að meta það sem bakvarðasveitin hefur lagt á sig og allt íslenska heilbrigðiskerfið. Þannig að þetta mál er til umfjöllunar og ég veit að það mun koma jákvæð og farsæl lausn á þessu máli á allra næstu dögum,“ segir Lilja.

Í svari Menntasjóðs námsmanna til Ástu, sem barst henni fimm mánuðum eftir að hún sendi fyrst inn erindi vegna málsins, segir að engin heimild sé í núgildandi reglum sjóðsins til að undanskilja greiðslur fyrir störf í bakvarðasveitum við útreikning lána. Fleiri eru í sömu stöðu og Ásta; námsmenn með heilbrigðismenntun sem hafa hug á að skrá sig í bakvarðasveitina en gera það ekki af ótta við að verða fyrir tekjuskerðingu. 

Lilja segir að fundin verði lausn á málinu. 

„Stjórn menntasjóðsins er að vinna að því, það verður tekið tillit til þessa og þeirra óska sem viðkomandi námsmenn eru að fara fram á, það er að segja að það verði tekið tillit til þessara tekna. Þannig að þetta í rauninni ætti ekki að hamla fólki frá því að skrá sig í bakvarðasveitina? Nei, ég hvet fólk til að skrá sig í bakvarðasveitina, við kunnum svo sannarlega að meta hvað bakvarðasveitin hefur verið að gera og þess vegna er stjórn menntasjóðsins að taka þetta til efnislegrar umfjöllunar,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV