Biblíusögulegir tímar

Mynd: Forlagið / Forlagið

Biblíusögulegir tímar

17.10.2020 - 14:57

Höfundar

Váboðar nefnist nýtt smásagnasafn eftir Ófeig Sigurðsson. Þetta er fyrsta sagnasafn Ófeigs sem þekktur er meðal annars fyrir verkin Áferð, Skáldsögu um Jón, Landvætti, Öræfi og Heklugjá. Í nýju bókinni skrifar Ófeigur um drauma og feigðarboða, berdreymi, stórhuga áform, apa, máfa, skáld og vísindamenn um leið og rýnt er í marflatan samtímann.

Ófeigur Sigurðsson hlaut árið 2011 evrópsku bókmenntaverðlaunin fyrir Skáldsögu um Jón, sem fjallar um Jón Steingrímsson eldklerk, og íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Öræfi árið 2015. Váboðar er eins og áður segir fyrsta smásagnasafn Ófeigs sem auk skáldsagna hefur gefið út ljóðabækur. Hann segist ekki vita nákvæmlega hvers vegna hann fór að glíma við það að skrifa smásögur. „Þær bara spruttu fram og sennilega bara vegna þess að ég var að lesa mikið af smásögum og það vill smitast yfir í skrifin. Og ég dáðist að þessu formi og gerði atlögu að þessu formi, og athugaði hvort ég ætti einhvern sjens í það, þetta er afraksturinn af því.“

Ófeigur segir smásöguna vera mjög frjálst og opið form og heillandi að því leyti. „Það eru eiginlega engin mörk sett á þetta form nema þá helst lengdin, þær verða að vera smáar, en fela eitthvað stórt í sér, og helst þá einhvern veginn undir niðri, eða bakvið, margt ósagt.“ Sögurnar í Váboðum tengjast með ýmsum hætti, sjálfur segir Ófeigur að þær haldi hver annarri á lofti. „Það gerist einhvern veginn ósjálfrátt af því þær urðu til allar þessar sögur á frekar skömmum tíma, ég var eiginlega að vinna í þeim nokkurn veginn öllum á sama tíma. Og ég vissi í rauninni ekki hvort þetta yrðu smásögur eða brotakennd skáldsaga eða eitthvað slíkt. En ég hugsaði þetta sem smásögur, og jú jú það eru einhverjar tengingar, svipuð fyrirbrigði og tákn og einhverjir fyrirboðar, slys og dauðsföll.“

Áskorun að skrifa um drauma

Einkunnarorð nýju bókarinnar eru tekin frá danska rithöfundinum Johannesi V. Jensen úr riti hans Í eyðimörkinni sem Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi þýddi: „Maðurinn er að utan lagður þunnri skel af skynsemi, en undir er djúp skelfingar.“

Í sögum Ófeigs má greina togstreitu á milli annars vegar gamallar heimsmyndar og fornrar þekkingar, sem kyndilberar upplýsingarinnar vildu kveða í kútinn á sínum tíma, og hins vegar skynsemishyggju og heimsmyndar nútímans sem afneitar í vissum skilningi skáldlegri sýn á heiminn. Þær vega salt á milli skynsemi og skelfingar. „Það er svo mikil þekking sem er falin í draumum, þetta er stór hluti af okkar lífi og þetta eru svo miklir leyndardómar, og þetta er svo furðulegt, og eiginlegri furðulegri þögnin sem umlykur svefninn og draumana, þetta er svolítið farið úr okkar menningu, var meira hérna á öldum áður þar sem kannski fjölskyldur hófu daginn á því að ræða draumana sín á milli. En svo er það líka áskorun að skrifa um drauma því flestir þola ekki drauma annarra. Þeir þola illa sína eigin drauma og enn verr drauma annarra. Þannig að það var ákveðin áskorun að skrifa um drauma, að reyna að gera þá áhugaverða.“

Að opinbera myrkrið í sjálfum sér

„Ekki er mark að draumum,“ segir í Gunnlaugs sögu Ormstungu, og ýmsir halda því fram að maður eigi helst aldrei að segja öðru fólki hvað mann dreymir. Persónur í sögum Ófeigs Sigurðssonar kvitta ekki undir þetta viðhorf. „Maður getur opinberað myrkrið í sjálfum sér með því að tala um drauma,“ segir Ófeigur, „og það er þarna undir niðri ýmislegt sem maður vill ekki opinbera, hvorki fyrir sjálfum sér né öðrum. En það er óumflýjanlegt að horfast í augu við það.“

Fylgjur, feigð og fyrirboðar

Í sögum Ófeigs er oftar en ekki eitthvað yfirvofandi, feigðarboðar hrannast upp, spáð er fyrir um ógæfu og dauða, fjallað um fylgjur og fyrirboða af ýmsu tagi. Í einni sögunni segir til að mynda af kveðskap dauðra skálda í draumum barna. Þar kemur við sögu ævafornt skáld sem yrkir í gegnum barn sem fer í svefni með torræða vísu og ýjað að því að skáldið sé „að koma ákveðnum skilaboðum áleiðis til mannkynsins.“ 

Aðspurður hvort hann sé með bókinni að færa mannkyninu ákveðin skilaboð segir Ófeigur ekki svo vera. „Það er náttúrlega of seint að vara við veirunni, og hún kemur ekkert við sögu. Maður er oft með einhver skilaboð án þess að vita af því. Og maður veit oft í rauninni ekki hvað maður er að skrifa fyrr en eftir á eins og rithöfundar nefna oft. En það er ekki neinn beinn boðskapur að það sé einhver hætta handan við hornið. Þetta eru sögur um fólk sem er að glíma við ákveðin tákn og fyrirboða og eru að reyna að lesa í hvað framtíðin geti borið í skauti sér til að koma í veg fyrir til að mynda slys eða dauðsföll, ótímabær.“ 

Og Ófeigur bætir við: „Þetta eru viðvörunarbjöllur sem klingja í mér og enduróma í textanum með óbeinum hætti. Ég er ekki beint með nein viðvörunarskilaboð, ég er ekki að segja mannkyninu til hvernig það eigi að haga sér, það er ansi óstýrilát skepna.“ 

Allt farið til andskotans

Stutt er í heimsósóma í þessu nýja verki Ófeigs Sigurðssonar. Persónur sagnanna fárast út í litlausan og marflatan samtíma, hneigjast frekar til draumráðninga og fuglaskoðunar, fást við rannsóknarefni af ýmsu tagi sem tengjast oftar en ekki hinu dulræna. „Menn og dýr á flótta ... Syndaflóðið er þegar hafið að nýju ... við lifum á biblíusögulegum tímum,“ segir persóna í upphafssögu bókarinnar. Í annarri sögu segir: „Við höfum verið að gera hlutina rangt of lengi.“ Og í enn annarri: „Það bara er allt að verða verra og verra og ljótara og ljótara og við daufari og ónæmari svo við tökum ekki eftir því [...] flestum er alveg sama þótt allt sé farið til andskotans.“ 

Ófeigur segir að við séum komin að ögurstund á svo mörgum sviðum. „Ég held að við glímum mannkynið við svo stór vandamál að það er varla hægt að ræða þau. Og þau eru af siðferðislegum toga, eins og til dæmis offjölgun mannsins, eins og veiran virðist vera að minna okkur illþyrmilega á, og það er bara siðferðislegt vandamál sem er mjög erfitt að ræða vegna þess að lausnin er ekki öllum að skapi, og ekki mér heldur.“

Fuglar, apar og Elly Vilhjálms

Fuglar og fuglaskoðun koma mjög við sögu í bók Ófeigs, „Fuglar eru jafn erfiðir viðureignar og draumar [...]. Aðeins með því að skilja drauma getum við skilið fugla og með því að skilja fugla skiljum við drauma betur,“ segir á einum stað í Váboðum. „Ég hef gaman af því að skoða fugla og er alltaf að reyna að mennta mig á því sviði með misjöfnum árangri,“ segir Ófeigur. „Það er bara eitthvað svo heillandi við þá, þeir eru forsögulegir og alveg einhvern veginn á skjön við allt mannlegt. Það eru ýmis atriði sem vekja áhuga minn eins og þessi rauði augnhringur í bjartmáfinum, hvað hann eigi að fyrirstilla, hann er eitthvað tákn sem við skiljum ekki, skilaboð til annarra af hans gerð eða tegund. Þannig að það eru ýmsir hlutir sem gaman er að rýna í þegar kemur að fuglum, og reyna að skilja, þótt maður skilji þá ekki er það samt gaman.“ 

Í kostulegri sögu sem nefnist Apar á Íslandi skrifar Ófeigur meðal annars um apapar sem sagt er að hafi komið til Íslands um miðja sautjándu öld. „Ég var að lesa ferðasögu Jóns Indíafara og þar er ein setning undir lok bókar þar sem sagt er frá tveimur öpum sem koma með honum til landsins og þeir eru teknir með á Þingvelli. Og þau vöktu athygli mína viðbrögðin sem þeir vekja þessir tveir apar á Þingvöllum, þarna á miðri sautjándu öld held ég, og það er borin mikil virðing fyrir þeim. Fólkið það hneigir sig og konur eru farnar að prjóna sokka á þá, en svo er ekkert vitað um afdrif þessara apa. Þeir hafa líklega endað á Bessastöðum.“ 

Fleiri apar koma við sögu í þessari galsafengnu frásögn, og sömuleiðis söngkonan ástkæra Elly Vilhjálms: „Hún átti apa sem hún smyglaði til landsins. Hann fannst nú um daginn í geymslu á Akureyri og var stoppaður upp, og er nú prýði Hveragerðisbæjar, þau voru afdrif hans. Ég reyndi að rannsaka sögu apanna á Íslandi, hvað hafa komið margir apar og hvað hefur orðið um þá. Og hvaða erindi þeir hafa haft hingað. Og hvernig þeim hefur verið tekið hér á landi. Það má spegla þetta á ýmsa vegu, varðandi innflytjendamál eða eitthvað slíkt.“

Útgáfa á tímum kórónuveiru

Ófeigur segir að það sé dálítið öðruvísi að gefa út bók við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu. „Það er ekkert útgáfuhóf og engir upplestrar þannig að kynningarmál eru af öðrum toga, fara mikið fram á samfélagsmiðlum, þannig að maður þarf að vera með einhvern fulltrúa til að sinna þeim málum. Annars er líka svo skammt liðið á vertíðina þannig að þetta fer bara rólega af stað, en ég held að andrúmsloftið sé nokkuð gott og lestur í blóma, og sláttur á mér.“ 

„Í dag er allt svo ómerkilegt, [...]það má ekkert vera á dýptina lengur, einfalt og fallegt. Það má ekkert vera rólegt og taka sinn tíma,“ segir persóna í sögunni Ljót kona fer í viðtal. „Við erum að reyna það núna,“ segir Ófeigur, „núna er tími til þess að fara á dýptina og anda rólega.“ 
 
Rætt var við Ófeig Sigurðsson í Víðsjá. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Heimsbókmenntaleg tilraun sem spannar árþúsund

Tækni og vísindi

Aðeins sex tegundir skáldsagna

Bókmenntir

„Þetta er stórfljót“

Bókmenntir

Heklugjá - Ófeigur Sigurðsson