Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Alltaf sama áfallið“ að fá uppsagnarbréf

17.10.2020 - 17:00
Mynd: RÚV / RÚV
Flugmenn sem fréttastofa tók tali segja alls óvíst hvenær þau fá vinnu að nýju en það geti verið allt að tvö ár. Margir séu í erfiðri stöðu og eigi eftir að leita á önnur mið. Flugsamgöngur eru enn í lamasessi víðast hvar í heiminum. 

„Ég er nú ekki með nákvæma tölu hversu mörg uppsagnarbréfin eru orðin en þau eru sjálfsagt í kringum tuginn geri ég ráð fyrir. Oftast nær kemur þetta ekki á óvart af því þú veist hvað er í gangi í kringum þig á hverjum tíma. En þetta alltaf sama áfallið. Þetta er vont en það venst ekki,“ segir Jóhannes Bjarni Guðmundsson flugmaður til tuttugu ára.

Reiknar ekki með að fljúga aftur fyrr en eftir tvö ár

Það hægðist á flugsamgöngum í kringum hryðjuverkin á tvíburaturnana ellefta september og líka við bankahrunið 2008 en Jóhannes segir að ástandið hafi aldrei verið eins slæmt og nú.

Guðbjörg Rós Guðnadóttir er með um fimm ára reynslu sem flugmaður. Henni var sagt upp í einni af hópuppsögnum Icelandair í vor. „Það var auðvitað áfall að missa vinnuna í vor og vita að líklega myndi maður ekki fá aftur starf kannski næstu tvö árin eða jafnvel meira,“ segir Guðbjörg Rós Guðnadóttir. Hún segir líklegt að hún leiti sér að annarri vinnu. 

Ekkert um að vera erlendis heldur

Erfitt er að leita til útlanda því staðan er sú sama þar.„Það væri hægt að leita á hófana einhvers staðar annars staðar ef það væri eitthvað um að vera en það er í rauninni ekki,“ segir Jóhannes.

Reynslumeiri flugmenn fá vinnu fyrr samkvæmt sérstökum starfsaldurslista. Um 90% af flugmönnum Icelandair hafa fengið uppsagnarbréf. „Flugmenn sem eru nýlega byrjaðir að vinna sem eru að missa vinnuna núna eru flestir með stóran skuldabagga á bakinu,“ segir Guðbjörg.

Það getur verið dýrt að halda flugréttindum við. Jóhannes segir að það sé þungt yfir samstarfsfólki hans og öruggt að einhverjir leiti á önnur mið. „Ég þekki marga tugi í kringum mig, góðir vinir og kunningjar, sem eru í erfiðri stöðu. Óvissan er mikil. Það er alveg óljóst hvenær maður fær aftur vinnu í þessum geira.“

Vinnumálastofnun spáir auknu atvinnuleysi á næstu mánuðum og að það fari yfir 11% í nóvember. Nú eru tæplega 22 þúsund manns atvinnulausir eða í skertu starfshlutfalli.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV