Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Alls ekki hægt að segja að saga loðnunnar sé búin“

Mynd með færslu
Birkir Bárðarson, fiskifræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.  Mynd:
Ekki er hægt að fullyrða að loðnustofninn hér við land sé hruninn, þrátt fyrir að Hafrannsóknarstofnun mæli ekki með að gefinn verði út kvóti þriðju vertíðina í röð. Jákvæð teikn eru á lofti fyrir næstu vertíð.

Stærð loðnustofnsins mældist um 344 þúsund tonn eftir haustmælingar Hafrannsóknastofnunar, en þegar búið er að taka tillit til fleiri þátta er ekki talið mögulegt að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar eins og reglur kveða á um.

Annar leiðangur verður farinn í janúar og febrúar sem segir endanlega til um ráðgjöf varðandi veiðar. Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri Hafrannsóknastofnunar, segir að óvenjumikill hafís hafi haft áhrif á haustmælingarnar.

„Við sáum loðnu í námunda við hafísinn á ákveðnum svæðum og komumst ekki yfir þau svæði sem við hefðum viljað. Á þeim svæðum höfum við séð loðnu undanfarin ár, þannig það má leiða að því líkum að þetta sé vanmat að einhverju leyti,“ segir Birkir.

En það breytir ekki ykkar ráðgjöf?

„Nei, það breytir ekki okkar ráðgjöf.“

Þyngd ungloðnu styðji að stofninn sé til staðar

Haustmælingin olli vonbrigðum, því bjartsýni ríkti um að hægt væri að gefa út kvóta í ár þar sem loðnubrestur undanfarnar tvær vertíðir ollu miklu tekjufalli. Er þá hægt að leggja mat á þetta í stærra samhengi, jafnvel hvort loðnustofninn sé hreinlega að hverfa úr lögsögunni?

„Nei, það er ekki hægt að fullyrða að loðnan sé algjörlega hrunin. Reyndar í þessum leiðangri okkar núna þá mældist mikið af ungloðnu, sem er vísitala fyrir næsta fiskveiðiár. Þannig það eru ákveðnar jákvæðar niðurstöður þarna líka og alls ekki hægt að segja að saga loðnunnar sé búin,“ segir Birkir.

Þá virðist ungloðnan nú vera óvenjulétt, sem Birkir segir að svipi til þess þegar loðnustofninn var stór á árunum fyrir aldamót.

„Það má spyrja sig hvort það styðji það að það sé mikið af ungloðnu þarna úti,“ segir Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri Hafrannsóknastofnunar.