Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Vilja dæla geislamenguðu kælivatni Fukushima í sjóinn

16.10.2020 - 06:22
Erlent · Asía · Fukushima · Japan · Umhverfismál
epa08180661 (FILE) - Workers demolish old storage tanks including water processed in ALPS (Multi-nuclide retrieval equipment) at the tsunami-devastated Tokyo Electric Power Company (TEPCO) Fukushima Daiichi Nuclear Power Plant in Okuma town, Fukushima Prefecture, Japan, 22 January 2020 (re-issued 31 January 2020). According to media reports, Japan's industry ministry said on 31 January that it is considering the release of treated radioactive water still containing tritium from the crippled Daiichi Fukushima nuclear plant into the ocean, as it would be preferable to releasing it into the atmosphere.  EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA / POOL
Mengað kælivatnið úr kjarnorkuverinu í Fukushima er geymt í rúmlega 1.000 vatnsgeymum Mynd: epa
Til stendur að losa rúmlega milljón tonn af geislamenguðu vatni úr kælikerfum Fukushima-kjarnorkuversins í hafið á næst árum og áratugum. Ætlunin er að hefjast handa við losunina árið 2022 og talið að það geti tekið áratugi að klára verkið. Fiskimenn í Fukushima og nágrenni óttast að aðgerðin muni hafa af þeim lífsviðurværið - enginn muni vilja leggja sér það til munns, sem þeir sækja í greipar geislamengaðs hafsins undan Fukushima.

Japönsk stjórnvöld eru sögð hafa tekið ákvörðun um þetta nú þegar og að opinberrar tilkynningar þar að lútandi sé að vænta í lok mánaðarins, samkvæmt Kyodo-fréttastofunni. Deilt hefur verið um það árum saman, hvað gera skuli við kælivatnið, sem nú nemur 1,2 milljónum tonna. Meðal leiða sem skoðaðar hafa verið eru uppgufun og bygging enn fleiri og traustari vatnsgeyma, en samkvæmt frétt breska blaðsins Guardian hefur ríkisstjórnin lengi hallast að því að best sé að dæla því á haf út í smáum skömmtum á löngum tíma.  

Fukushima-kjarnorkuverið eyðilagðist í jarðskjálfta 11. mars 2011 og mikilli flóðbylgju sem fylgdi í kjölfarið. Meira en 20.000 fórust í hamförunum. Þrír kjarnakljúfar versins bráðnuðu eftir hamfarirnar og geislavirk efni bárust út í nágrenni þess.