Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tvísýnt um Brexit viðskiptasamning

16.10.2020 - 13:34
Mynd: EPA-EFE / UK PARLIAMENT
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, segir að Bretar verði að búa sig undir að viðskiptin við Evrópusambandið verði á grundvelli alþjóðlegra viðskiptasamninga. Horfur á að viðskiptasamningur takist á milli ESB og Breta hafa minnkað. Lítill vilji virðist til að slaka á afstöðu. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir þó að báðir þurfi að gefa eftir til að ná samkomulagi. 

Macron harður í horn að taka

Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, sagði í gærkvöld að Bretar yrðu að fallast á skilyrði Evrópusambandsins ella yrði ekkert af viðskiptasamningi sambandsins og Breta. Leiðtogar Evrópusambandsins sitja nú á fundi í Brussel og ræddu Brexit í gær. Bretar fara endanlega út úr ESB um áramótin, þeir eru enn með á innri markaði bandalagsins og í tollabandalagi til áramóta. 

Orðum Macrons illa tekið í Lundúnum

Þessum orðum Frakklandsforseta var ekki vel tekið í Lundúnum. David Frost, aðalsamningamaður Breta, sagði á Twitter að þau væru mikil vonbrigði og hann væri hissa á að ESB væri ekki lengur tilbúið til að setjast niður og ræða til þrautar uns lausn fyndist eins og hann og Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, hefðu orðið sammála um fyrr í mánuðinum. Í yfirlýsingu leiðtoga ESB um Brexit var orðalaginu að ræða til þrautar sleppt. Frost sagði og í sinni yfirlýsingu að hann undraðist að bandalagið krefðist einungis tilslakana af hálfu Breta, það væri óvenjuleg samningsaðferð.

Merkel sáttfúsari í tali

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var mun mildari í sinni yfirlýsingu en Macron Frakklandsforseti og var greinilega í mun að skella engum dyrum í lás. Merkel gaf í skyn að ESB yrði einnig að slaka á kröfum sínum. Báðir aðilar hefðu sínar rauðu línur, en yrðu að gera tilslakanir. sagði Þýskalandskanslari. Mikilvægt væri að semja til að tryggja frið á Norður-Írlandi.

Johnson undirbýr samningalausa útgöngu

Boris Johnson, forsætisráherra Breta, brást við um hádegisbilið og sagði að ef leiðtogar ESB væru ekki tilbúnir til að gefa eftir yrðu Bretar að búa sig undir samningslausa útgöngu. 

Fyrst að við fáum ekki viðskiptasamning eins og Kanadamenn verðum að búa okkur undir samning eins og Ástralir hafa sem byggður er á alþjóðlegri fríverslun.

Johnson sleit ekki viðræðunum eins og hann hafði hótað fyrir leiðtogafund ESB-ríkjanna, en margt bendir til þess að líkur á viðskiptasamningi séu minni nú en fyrir leiðtogafundinn.