Sveitarstjóri Norðurþings lækkar launin vegna COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Byggðarráð Norðurþings samþykkti á fundi sínum í gær tillögu Kristjáns Þórs Magnússonar, sveitarstjóra, um að laun hans yrði lækkuð um 6 prósent frá 1. janúar á næsta ári. Með því sparar sveitarfélagið 1,3 milljónir. Þá var einnig samþykkt að seinka launahækkunum æðstu stjórnenda til 1. júlí en með því sparast 2,7 milljónir.

Þá lagði byggðarráð það til að kjör kjörinna fulltrúa og nefndarmanna yrðu lækkuð frá 1. janúar til þeirrar fjárhæðar sem þau voru í upphafi kjörtímabilsins. Með þessu sparar sveitarfélagið sér 3,6 milljónir króna. Þeirri tillögu var vísað til sveitarstjórnar.

Í fundargerð byggðarráðs kemur fram að Kristján Þór hafi lagt fram minnisblað um stöðu mála. Þar segir að Norðurþing, líkt og önnur sveitarfélög á landinu, glími við erfiðleika í rekstri.

Allt bendi til þess að Norðurþing verði rekið með halla á þessu ári og á því næsta. Markmiðið sé fyrst og fremst að halda í störf og koma í veg fyrir brottflutning. Engu að síður sé mikilvægt að grípa til hagræðingaraðgerða þar sem því verði komið við.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi