Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Smitin átján sem greindust á landamærunum öll virk

16.10.2020 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Farþegarnir átján sem komu saman til landsins í fyrradag og greindust með COVID-19 á landamærunum eru allir með virkt smit. Þetta staðfestir Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í samtali við fréttastofu. Enn stendur yfir smitrakning í tengslum við smitin og Jóhann hefur ekki upplýsingar um það hvort fleiri hafi ferðast með hópnum.

Í gær var greint frá því að átján hefðu greinst með COVID-19 í skimun á landamærunum í fyrradag. Svo mörg smit höfðu ekki greinst þar á einum degi síðan landamæraskimun hófst.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi Almannavarna í gær að fólkið sem hefði greinst væri búsett hér á landi og hefði verið saman á leið heim úr ferðalagi. Smitrakning kynni að leiða í ljós fleiri smit. Jóhann segir að fólkið hafi allt íslenskar kennitölur og að það hafi verið á leið heim frá Póllandi. 

Frá því að skimun hófst á landamærunum hafa yfirleitt greinst þar á bilinu eitt til átta smit á dag. Þar til í fyrradag höfðu aldrei greinst fleiri en níu smit á landamærunum.