Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Smit í nánast öllum póstnúmerum höfuðborgarsvæðisins

Mynd með færslu
Inn á kortið eru ekki upplýsingar um póstnúmerið 276 eða Kjós. Þar eru tveir í einangrun Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Einhver er í einangrun í nánast öllum póstnúmerum á stór-höfuðborgarsvæðinu. Meira en helmingur allra sem eru í einangrun á landinu öllu er með lögheimili í Reykjavík.

Almannvarnarnefndir á landsbyggðinni hafa reglulega birt tölur um fjölda í einangrun og sóttkví eftir póstnúmerum. Hér að neðan má til dæmis sjá tilkynningu frá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra.

Svona framsetning hefur hins vegar ekki tíðkast á höfuðborgarsvæðinu.

Fréttastofa óskaði eftir þessum tölum frá ríkislögreglustjóra til að sjá hvernig dreifing smita væri háttað á höfuðborgarsvæðinu. Tölurnar miðast við daginn í gær og taka því vafalaust einhverjum breytingum klukkan 11  í dag, föstudag, þegar nýjar tölur líta dagsins ljós.  

Í byrjun faraldursins í vor var ekki mælst til þess að gefa upp nákvæmlega í hvaða sveitarfélögum smit greindust en í apríl var gefið grænt ljós á það af hálfu landlæknisembættisins þar sem það væru hagsmunir almennings að fá að vita stöðu mála hverju sinni.

Eins og kom fram í fréttum í vikunni eru á fimmta hundrað smita rakin beint til tveggja hópsýkinga á höfuðborgarsvæðinu; annars vegar á hnefaleikastöð í Kópavogi og svo frá skemmtistað í miðborg Reykjavíkur.

Af þeim 1.170 sem eru skráðir í einangrun á vef COVID eru 1.016 búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða 86 prósent.  Af þeim rúmlega þrjú þúsund sem eru í sóttkví eru nærri 2.400 með lögheimili þar eða 78 prósent. 

Ríflega helmingur þeirra sem er í einangrun á höfuðborgarsvæðinu eða 540 eru með lögheimili í Reykjavík.  211 eru með lögheimili í Kópavogi, 125 í Hafnarfirði, 71 í Garðabæ, 54 í Mosfellsbæ og 15 á Seltjarnarnesi.

Tölurnar gefa vísbendingu um hversu dreifð veiran er. Hún er ekki eingöngu bundin við eitt hverfi eða sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu og það sést best  þegar smit miðað við fjölda íbúa í hverju hverfi er skoðað.  Það er víðast hvar á bilinu 0,3 til 0,5 prósent. Þegar fjöldi smita er skoðaður eftir póstnúmerum eru 118 í einangrun með skráð lögheimili í 105 eða Hlíðahverfinu. Því næst er póstnúmerið 200 í Kópavogi þar sem 98 eru í einangrun. 

Lægst er hlutfall smita miðað við fjölda íbúa í póstnúmerum 103 og 107. Í því fyrrnefnda er hlutfallið 0,16 prósent þar sem aðeins 4 eru í einangrun og í 107 er það 0,18 prósent þar sem 18 eru í einangrun.

Hertar reglur tóku gildi fyrir höfuðborgarsvæðið þann 7. október. Rykið var dustað af tveggja metra reglunni, mælst var til þess að fólk væri með grímu í verslunum og sundlaugum var lokað.  Faraldurinn var þá á hraðri uppleið enda leiddi spálíkan Háskóla Íslands í ljós að smitstuðullinn var 3 sem þýðir veldisvöxtur. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, skilaði í gær minnisblaði til heilbrigðisráðherra þar sem fastlega má reikna með að þessar aðgerðir verði framlengdar um tvær til þrjár vikur. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV