Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir munn- og nefúðann ekki lyf heldur vörn

16.10.2020 - 09:21
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri fyrirtækisins Kerecis, segir að Kerecis hafi varið rúmlega 100 milljónum í að sýna fram á skaðleysi munn- og nefúða sem fyrirtækið auglýsir sem vörn gegn kórónuveirunni. Hann segir úðann ekki lyf heldur lækningavöru og að virkni hans sé ekki ósvipuð virkni handsápu.

„Við erum að setja þessa vöru á markað í ljósi þess að efnið, fitusýrusameindirnar, drepur COVID-19 vírusinn, alveg eins og handsápa gerir, þetta eru bara miklu fíngerðari efni. Og í ljósi þess að varan orsakar engar aukaverkanir og er alveg skaðlaus mannslíkamanum. Það er mjög vel skilgreint ferli sem skilgreinir hvaða mælingar og rannsóknir við þurfum að gera,“ segir hann.

Sóttvarnalæknir gerði í gær athugasemdir við það að ekki væri búið að prófa úðann á mönnum og setti fyrirvara við markaðssetninguna. Guðmundur minnir á að úðinn sé ekki markaðssettur sem lækning gegn COVID-19, heldur vörn.  

Hann segir að ýtarleg löggjöf hér á landi tryggi að vörur skaði ekki fólk og að þær virki og að fyrirtækið hafi gert ýtarlegar rannsóknir sem sýna fram á að varan uppfylli kröfurnar. 

Spurður hvort ekki hafi verið gerðar neinar rannsóknir á mönnum segir Guðmundur að bæði hafi sáraúðinn verið notaður í mörg ár til að koma í veg fyrir ígerðir í sárum og að á Ítalíu hafi hátt í 80 sjúklingar með einkenni COVID-19 verið meðhöndlaðir með vörunni. Þá fari nú fram rannsóknir á Landspítalanum á virkni úðans og búast megi við niðurstöðum á næstu misserum. 

„Það eru engar tvíblindar rannsóknir á virkni handsápu á COVID-19. Mér er ekki kunnugt um neinar rannsóknir þar sem einn hópur er látinn þvo sér og annar ekki og svo athugað hvort fólk smitist af COVID-19. Það er nákvæmlega sama og við erum að gera hér,“ segir hann.