Segir ástandið tvísýnt og óvissuna mikla

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Thor Aspelund, prófessor í líftölufræði og einn af forsvarsmönnum spálíkans Háskóla Íslands, segir að því miður sé smitstuðullinn hér á landi enn yfir einum, eða rúmlega 1,5. „Ástandið er því tvísýnt og það er ekki útilokað að við fáum aðra bylgju inn í þetta ástand ef núverandi aðgerðir bíta ekki.“

Spálíkan Háskóla Íslands var birt í dag.

Thor sagði í hádegisfréttum RÚV að þar sem óvissan væri mikil nái spáin styttra fram í tímann og þau verði að vera varkárari. Hann segir þó jákvætt að síðustu daga hafi hlutfall nýgreindra í sóttkví verið yfir 50 prósent. Á miðvikudag var þetta hlutfall 80 prósent og í gær 67 prósent. „En þetta verður að halda svona áfram,“ segir Thor.

Á vef spálíkansins kemur fram að með auknum umsvifum í þjóðfélaginu í september hafi veiran náð sér á flug með stóru hópsmiti á höfuðborgarsvæðinu í kringum 15. september.  „Og við sem samfélag höfum ekki enn náð stjórn á faraldrinum.“ Um tíma hafi litið út fyrir að tök væru að nást en annað hópsmit í byrjun október hafi „bókstaflega sett strik í reikninginn.“

Settar eru upp tvær sviðsmyndir. Fyrri sviðsmyndin byggist á því að aðgerðir hafi áfram áhrif á smitstuðulinn, gert er ráð fyrir að smitrakning haldi í við faraldurinn og 50 prósent nýgreindra verði í sóttkví. „Þó óvissan sé mikil bendir þessi sviðsmynd til þess að smitum fækki heldur á næstu tíu dögum.“

Seinni sviðsmyndin er dekkri en þá hafa aðgerðir ekki áhrif á smitstuðul, til dæmis vegna lakari þátttöku almennings og hann helst svipaður áfram.  Smitrakning heldur þó áfram í við faraldurinn og helmingur þeirra sem greinast með smit eru í sóttkví.  „Í þessari sviðsmynd er enn meiri óvissa um þróun faraldursins og smitum gæti rétt eins fjölgað á næstu tíu dögum.“

Forsvarsmenn spálíkansins segja báðar sviðsmyndirnar endurspegla mikla óvissu um hvert stefnir þegar smitstuðull er yfir einum. „Meðan hann er yfir 1 er til staðar ástand þar sem smit geta auðveldlega blossað upp og þróað faraldurinn í veldisvísisvöxt.“  Það sem hafi áhrif á smitstuðulinn sé hegðun fólks. „Ef þátttaka í aðgerðum er góð, fólk heldur fjarlægð, vinnur heima og passar upp á smitvarnir þá tekst þetta.“ Lykilatriði sé að ná smitstuðlinum niður fyrir 1.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi