Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sátu fyrir svörum kjósenda

Mynd:  / 
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, sátu báðir fyrir svörum kjósenda í gærkvöld, hvor á sínum fundi sem báðir voru í beinni sjónvarpsútsendingu. Upphaflega var ráðgert að kappræður yrðu í gærkvöld, en Trump neitaði að taka þátt þegar ákveðið hafði verið að þær yrðu um fjarfundabúnað. 

Gagnrýndi viðbrögð forsetans

Joe Biden var afar gagnrýninn á viðbrögð Trumps og sagði hann hafa leynt Bandaríkjamenn sannleikanum um að veiran væri afar hættuleg. Forsetinn segðist ekki hafa viljað vekja ofsahræðslu, Bandaríkjamenn brygðust ekki þannig við, sannleikurinn væri að forsetinn hefði panikkerað.

Trump kennir Kínverju enn og aftur um faraldurinn

Trump varði að hafa ekki talað um hversu hættuleg veiran væri, hann hefði ekki viljað hræða þjóðina og segja að allir myndu deyja. Trump skellti skuldinni enn og aftur á Kínverja. Forsetinn staðhæfði að tekist hefði að ná stjórn á faraldrinum.

Vildi ekki svara um QAnon

Savannah Guthrie, fréttamaður NBC sjónvarpsins, spurði Trump af hverju hann vildi ekki fordæma yfirlýsingar QAnon hreyfingarinnar sem heldur því fram að Demókrataflokkurinn sé hluti af alþjóðlegum hring barnaníðinga. Forsetinn skoraðist enn á ný undan því að fordæma QAnon sagðist ekkert vita um hreyfinguna nema að hún væri mjög á móti barnaníði. 

Ólíkur stíll forsetaefnanna

Til þess var tekið að stíll forsetaefnanna var afar ólíkur. Forsetinn hefði verið í baráttuskapi en Joe Biden mun yfirvegaðri. Breska blaðið Guardian segir að Trump hefði átt í erfiðleikum með hvassar spurningar stjórnandans

Biden enn með mikið forskot

Kannanir í Bandaríkjunum benda til að Joe Biden hafi umtalsvert forskot á Trump. Stjórnmálavefsíðan FiveThirtyEight segir að munurinn sé rúm tíu prósentustig. Kosningalíkan breska tímaritsins The Economist segir að miðað við stöðuna nú fengi Biden 343 kjörmenn en Trump 195 ef kosið væri í dag. Stjórnmálaskýrendur segja að fundirnir í gærkvöld skipti líklega litlu máli því langflestir kjósendur virðist þegar hafa gert upp hug sinn.