Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sá sem lést var á níræðisaldri

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sá sem lést af völdum COVID-19 á Landspítala í nótt var á níræðisaldri. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann segir að draga megi þær ályktanir af nýju spálíkani, sem birt var í hádeginu, að faraldurinn gæti verið að fara niður á við. Ekkert megi þó út af bregða.

„Þetta var manneskja á níræðisaldri. Meira er ekki um það að segja,“ sagði Þórólfur sem gat að öðru leyti ekki tjáð sig um þann sem lést.

Hann sagði að taka þyrfti spálíkönum með nokkrum fyrirvara. „Það sem er áhugavert í því núna eru útreikningar á þessum smitstuðli, en ég held að við þurfum að bíða lengur og sjá hvað kemur út úr því,“ segir Þórólfur. „Mér finnst áhugavert að þeir reikna út að smitstuðullinn er 1,5. Það er lægra en það var síðast og ég held að það sé nokkurn veginn í samræmi við það sem við erum að sjá. Vísbendingar af þessum fjöldatölum sem við erum að sjá síðustu tvo dagana gefa til kynna að faraldurinn gæti verið að fara niður.“

Þórólfur hefur skilað starfandi heilbrigðisráðherra minnisblaði sem kynnt var á ríkisstjórnarfundi í morgun. Þar er meðal annars lagt til að tveggja metra regla taki gildi að nýju um allt land í næstu viku. Að öðru leyti verða sömu takmarkanir í gildi og verið hafa næstu tvær til þrjár vikurnar. Stefnt er að því að kynna reglurnar á morgun. Þórólfur segir ólíklegt að þetta tímabil verði stytt. 

„Ég held að við þurfum að fara mjög hægt í að aflétta. Ég held að það taki lengri tíma núna að ná þessu niður en í vetur og þess vegna þurfum við að fara hægt í þetta. Því það þarf ekki mikið til til þess að við fáum ný smit og þetta fari allt á uppleið aftur. Þannig að ég held að það borgi sig að aflétta hægt og lenda á réttum stað heldur en að fara of hratt og þurfa að herða aftur,“ segir Þórólfur.