Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Rúmir 17 milljarðar í þjónustu við fatlað fólk

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Sveitarstjórnarráðherra hefur samþykkt áætluð framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á næsta ári. Nemur upphæðin 17,2 milljörðum króna.

Ráðherran samþykkti tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs þar að lútandi. Reykjavíkurborg fær mest eða um þriðjung framlagsins. Akureyri og nágrenni fá næstmest, rúm 12%, eða rúma tvo milljaðra króna. Suðurland og Hafnarfjarðarbær koma á þar á eftir með um einn og hálfan milljarð hvort. Fjárhæðirnar eru rekstrarfé fyrir málaflokkinn í heild fyrir utan NPA eða notendastýrða persónulega aðstoð. Framlögin renna m.a. til þjónustu við börn, sambýla fatlaðra og dagþjónustu. Sérframlag er í fjárlögum fyrir NPA. Níutíu manns eru með slíka samninga og nemur framlagið samtals 438 milljónum króna á þessu ári.