Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Páll Sverrisson fékk bætur og afsökunarbeiðni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Páll Sverrisson segist hafa fengið milljónir greiddar úr ríkissjóði. Árið 2018 komst ríkislögmaður að þeirri niðurstöðu að þrír dómstólar væru bótaskyldir vegna birtinga á viðkvæmum persónuupplýsingum um hann. Auk þess fékk Páll skriflega afsökunarbeiðni frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra.

Í samtali við fréttastofu segir Páll að ríkislögmaður hafi boðið honum 200 þúsund króna bætur eða hann gæti leitað til dómstóla ella. „Eiga brotamennirnir að dæma?“ spyr Páll.

Hann segist hafa farið fram á hærri bætur en hann fékk en greiðslan nú dugi ekki fyrir kostnaði hans við málið. Hann hafi ákveðið að þiggja sættir vegna ástandsins í samfélaginu.

Hluti bréf Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur til Páls Sverrissonar þar sem hún biður hann afsökunar á baráttu hans. Viðkvæmar persónupplýsingar um hann höfðu áður birst eftir dóma þriggja dómstóla og í Læknablaðinu.
 Mynd: Páll Sverrisson
Hluti bréfs Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur til Páls Sverrissonar af Facebook síðu hans

Ef ekki væri fyrir kórónuveirufaraldurinn segir Páll að hann hefði leitað til mannréttindadómstóls Evrópu.

Hann er þungorður í garð dóms- og stjórnkerfisins en kveðst vera sáttur við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Hún hafi gefið sér tíma til að tala við hann og hlustað á sjónarmið hans án hroka.

Upphafið að máli Páls má rekja aftur til ársins 2011 þegar tveir læknar sem hann leitaði til deildu um alvarleika áverka sem hann hlaut við byltu. Deilur læknanna fóru fyrir siðanefnd Læknafélagsins en annar þeirra notaði upplýsingar úr sjúkraskrá um Pál til varna í málinu.

Siðanefndin úrskurðaði að það hefði hann ekki mátt gera, úrskurðurinn birtist í Læknablaðinu án þess að Páll væri nafngreindur en þó sagt að hann væri með „vitræna skerðingu“. Það varð til þess að Páll fékk skaðabætur frá blaðinu og Læknafélaginu.

Héraðsdómur Reykjaness, Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur fjölluðu um skaðabótakröfu Páls en eftir að dómar féllu í málunum birtist nafn hans á vefnum domstolar.is Þar var sömuleiðis að finna viðkvæmar heilsufarsupplýsingar um hann.

Um langa hríð hefur Páll krafist réttlætis vegna birtinganna og segir enn verið að birta dóma þar sem viðkvæmar upplýsingar um fólk komi fram.