Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óvenju langt minnisblað Þórólfs með rökstuðningi

Heilbrigðisráðuneytið birti í dag nýja reglugerð um aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar og minnisblað Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis. Líkt og boðað hafði verið felur reglugerðin ekki í sér neinar stórvægilegar breytingar en það sem vekur athygli er að minnisblaðið er óvenju langt og þar er að finna ýmsan rökstuðning fyrir þeim aðgerðum sem hann leggur til.

Minnisblöðin frá Þórólfi hafa yfirleitt verið ein til tvær síður en minnisblaðið sem kynnt var á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og gert opinbert í dag er tíu síður. Þar tíundar Þórólfur þær aðgerðir sem hann leggur til og útskýrir meðal annars af hverju það ættu ekki alveg að gilda sömu reglur fyrir höfuðborgarsvæðið og aðra landshluta. 

Tilfelli að greinast í öllum landshlutum

Nærri 90 prósent allra smita í þriðju bylgju faraldursins eru á höfuðborgarsvæðinu en Þórólfur bendir á það í minnisblaðinu að nauðsynlegt sé að hafa takmarkanir utan þess. „Þó að faraldurinn sem nú er í gangi sé í mestum vexti á höfuðborgarsvæðinu þá eru tilfelli að greinast í öllum landshlutum,“ skrifar Þórólfur. Því sé mikilvægt að beita aðgerðum á þessum svæðum til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu og langdregnari faraldur.

Til að mynda hefur hin alræmda tveggja metra regla verið tekin upp að nýju á öllu landinu og þar sem ekki er hægt að tryggja hana er skylt að vera með grímu. „Eins metra fjarlægð frá smituðum einstaklingi minnkar líkur á smiti fimmfalt en tveggja metra fjarlægð minnkar líkurnar tífalt,“ segir Þórólfur.

Líkamsræktarstöðvar utan höfuðborgarsvæðisins verða áfram lokaðar en sundlaugum verður leyft að hafa opið þótt þær megi aðeins taka við helming þeirra sundgesta sem starfsleyfið segir fyrir um. Þórólfur rökstyður það þannig að á undanförnum vikum og dögum hafi tugir og jafnvel hundruð smita verið rakin til ýmissa líkamsræktarstöðva. Áhættan á smiti sé talsvert minni í sundlaugum. Því þyki rétt að takmarka hópmyndun í líkamsrækt þar til tök nást á faraldrinum.

Það má einnig stunda íþróttir með snertingu, bæði inni og úti, hjá íþróttafélögum utan höfuðborgarsvæðisins.  Hámarksfjöldi þátttakenda er 50.  „Vegna mikils fræðslustarfs innan íþróttahreyfingarinnar er áhætta á smiti milli keppenda talin vera lítil,“ skrifar Þórólfur og bendir á að útbreiðsla COVID-19 sé talsvert minni utan höfuðborgarsvæðisins en innan.  Því eigi að leyfa íþróttastarf þar. Krár úti á landi eigi að vera áfram lokaðar en veitingastöðum leyft að hafa opið til 23. Það er tveimur klukkustundum lengur en á höfuðborgarsvæðinu.

Þórólfur segir í minnisblaðinu að stórar hópsýkingar hafi verið raktar til kráa og skemmtistaða sem sé uppistaðan í þriðju bylgjunni. Því sé mikilvægt að halda þessum stöðum lokuðum. Minni hætta sé talin stafa af starfsemi veitingahúsa. Ástæðan fyrir styttri opnunartíma veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu er einföld; til að minnka líkur á smiti þar.

Ekkert sund en hægt að fara í golf 

Þótt reglurnar séu nokkuð svipaðar fyrir höfuðborgarsvæðið þá eru þar samt meiri takmörk fyrir því hvað fólk þar getur gert.  Til að mynda hvetur Þórólfur fólk til að halda sig sem mest heima og ferðast ekki að nauðsynjalausu til og frá höfuðborgarsvæðinu.  Uppspretta faraldursins sé á höfuðborgarsvæðinu en ekki sé ástæða til að setja á ferðatakmarkanir. 

Þá er íþróttastarf barna bannað sem og skólasund. Þórólfur rökstyður þetta með þeim orðum að börn í íþróttastarfi safnast saman úr mismunandi skólum og geta þannig stuðlað að smitum víða á höfuðborgarsvæðinu.  Því sé rétt að takmarka þessa hópmyndun á meðan verið sé að ná tökum á faraldrinum.

Líkt og utan höfuðborgarsvæðisins verða líkamsræktarstöðvar lokaðar sem og sundlaugar.  Aftur á móti geta kylfingar á höfuðborgarsvæðinu tekið gleði sína á ný því íþróttir án snertingar verða leyfðar að hámarki 20 í hópi án áhorfenda. Þar gildir tveggja metra reglan sem auðvelt er að framkvæma í golfi. Þórólfur segir í minnisblaðinu að lítil áhætta sé á smiti á milli einstaklinga í íþróttum þar sem engin snerting eða nánd er til staðar.

Og íbúar höfuðborgarsvæðisins verða að bíða með að fara í snyrtingu, nudd og í klippingu því allt slíkt eigi að vera lokað.  „Vegna útbreidds faraldurs á höfuðborgarsvæðinu er rétt að stöðva starfsemi sem felur í sér mikla nánd milli einstaklinga nema þeirrar sem þykir lífsnauðsynleg.“ Þórólfur segir að þessi tillaga verði endurskoðuð ef áhættumatið breytist.

Á vef Stjórnarráðsins er tekið fram að ný reglugerð taki gildi þann 20. október og að upplýsingar á vef heilbrigðisráðuneytisins séu settar fram með fyrirvara um mögulegar breytingar á útfærslu einstakra þátta í reglugerð sem er væntanleg. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er því ekki að vænta neinna frétta af framtíð Íslandsmótsins í knattspyrnu hjá bæði körlum og konum þótt margt bendi til þess að það verði erfitt að klára mótin. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV