Námslánin skert vegna þátttöku í bakvarðasveitinni

Námslán konu, sem fór í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustu í vor, verða skert um helming vegna launa fyrir vinnuna og álagsgreiðslu til heilbrigðisstarfsfólks. Fleiri eru í svipaðri stöðu og segist konan þekkja til fólks með heilbrigðismenntun sem ætlar ekki að skrá sig í bakvarðasveitina af ótta við tekjuskerðingu.

Ásta Kristín Marteinsdóttir er menntaður sjúkraliði og er að læra lögfræði í Háskólanum í Reykjavík. Í viðtali við Fréttablaðið.is í gærkvöld segir Ásta að sér hafi runnið blóðið til skyldunnar þegar hún sá heilbrigðisyfirvöld kalla eftir liðsauka í fyrstu bylgju faraldursins og skráð sig í bakvarðasveitina. Tveimur dögum síðar hóf hún störf á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

„Þá gat ég bæði uppfyllt þessa löngun hjarta míns að hjálpa til í heilbrigðiskerfinu og svo líka fjölskyldunni minni með því að afla aukinna tekna,“ segir Ásta.

Ásta var í bakvarðasveitinni í mánuð en hélt áfram að vinna á spítalanum út sumarið. En þegar hún svo sótti um námslán á nýjan leik fékk hún þær upplýsingar að lánsupphæðin yrði skert verulega vegna bakvarðalaunanna. 

„Það sem að gerist er að ef ég hefði bara verið í sumarvinnu hefði lánið mitt verið skert lítið, en þar sem ég vinn þarna einn aukamánuð og fæ bónus vegna álagsins,  þá eru námslánin mín skert um helming. Þessar tekjur sem ég aflaði mér í bakvarðasveitinni, kannski tuttugu prósent af þeim fékk ég þegar upp er staðið. Mér finnst þetta vera rosalega órökrétt. Alveg bara herfilega órökrétt og ósanngjarnt,“ segir hún. 

Landlæknir og heilbrigðisyfirvöld hafa undanfarið biðlað til fólks að skrá sig í bakvarðasveitina, þar sem þörfin sé mikil og ekki hafi gengið eins vel að manna hana og í fyrstu bylgju.

Ásta segir fleiri í sömu stöðu og hún, námsmenn með heilbrigðismenntun sem vilji skrá sig, en þetta fyrirkomulag hafi ekki hvetjandi áhrif. Að óbreyttu mun hún ekki skrá sig aftur í bakvarðasveitina. 

„Nei það hefur ekki hvetjandi áhrif fyrir mig, og ég hef alveg heyrt dæmi um það að það séu fleiri nemar, heilbrigðisstarfsmenn þarna úti með starfsleyfi, sem treysta sér ekki til að koma vegna þessa,“ segir Ásta Kristín.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi