Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Minni útgáfutíðni vegna kreppunnar

16.10.2020 - 07:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fríblaðið Mannlíf kemur ekki aftur út á prenti að óbreyttu og óvíst er hvort og þá hvenær Fréttablaðið kemur aftur út á mánudögum. Útgáfudögum Fréttablaðsins var fækkað fyrr á þessu ári vegna COVID-19 faraldursins og Mannlíf sneri ekki aftur úr útgáfuhléi. Útgefendur beggja blaða segja að efnahagsleg áhrif COVID hafi aukið þann vanda sem fjölmiðlar voru farnir að glíma við áður.

Björn Víglundsson, forstjóri Torgs, segir að tekjufyrirkomulag fjölmiðla hafi breyst mikið síðustu ár og efnahagsleg áhrif COVID-19 hafi bæst þar ofan á. „Framtíðarmyndin er ekkert sérstaklega björt án skýrrar aðkomu hins opinbera.“

„Það sem hefur breytt stöðu fjölmiðla er alþjóðavæðing bæði frétta og auglýsingamiðlunar. Þar er ljóst að íslenskir fjölmiðlar standa höllum fæti í samkeppni við stóra aðila,“ segir Björn. „Íslenskir fjölmiðlar hafa mjög sterka og skýra skírskotun til þjóðarinnar en kannski hafa auglýsendur mun fleiri leiðir til að ná til þessara sömu lesenda.“ Hann segir að erlendir fjölmiðlar séu ekki með sama stækkunarglerið á íslenskt samfélag og íslenskir miðlar. Á tímum opins internets hafi aldrei verið mikilvægara að hafa sterka fjölmiðla með skýra ritstjórn til að greina frá því sem er satt og rétt.

Útgáfudögum Fréttablaðsins var fækkað fyrr á þessu ári þegar blaðið hætti að koma út á mánudögum. Björn segir að það hafi verið tímabundin ráðstöfun til að bregðast við breyttum veruleika í COVID. Staðan verði svo metin upp á nýtt síðar. „Mér finnst ekkert sérstaklega líklegt í óbreyttri stöðu að það verði hlaupið til að bæta við útgáfudögum.“ Björn segir að það sé áframhaldandi verkefni að styrkja stöðu félagsins og stilla útgáfu í takt við tekjustoðir.

„Ég held að það sé augljóst og nokkurn veginn sama við hvaða fjölmiðil er rætt. Það er brýnt að það komi skýr skilaboð frá hinu opinbera,“ segir Björn. Hann segir að sér lítist ágætlega á þær vangaveltur sem hafi verið í gangi hjá stjórnvöldum. Nú sé brýnt að íslenskir fjölmiðlar fái skýr skilaboð um hvað standi til svo þeir geti farið að huga að sínum framtíðaráformun.

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV

Hlé var gert á útgáfu fríblaðsins Mannlífs í ágúst, eins og gert hefur verið ár hvert síðan blaðið hóf göngu sína. Til stóð að hefja útgáfuna á ný að loknu útgáfuhléi en af því hefur ekki orðið. Sigríður Dagný Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri og eigandi Birtíngs, segir að auglýsingamarkaðurinn hafi farið illa af stað eftir fyrstu bylgju COVID-19 og sumarið. Síðan hafi þriðja bylgja COVID komið með hertum samkomutakmörkunum. Auglýsingamarkaðurinn hefur því dregist verulega saman auk þess sem prentun og dreifing er dýr.

„Eins og staðan er núna fer maður ekki í frekari fjárfestingar eða fjárútlát í einhverju tapi, maður reynir að minnka tapið,“ segir Sigríður. Meðan staðan er óbreytt kemur Mannlíf ekki aftur út á prenti. „ Við erum að veðja á áskrifendur. Við erum með tímaritin,“ segir Sigríður og vísar til Gestgjafans, Húsa og híbýla og Vikunnar. Að auki sé Mannlíf sterkt vörumerki með langa sögu og því gæti það komið aftur út síðar.

Eftir að Mannlíf hætti að koma út á prenti hefur fréttaþjónustan færst á netið, þar er hún nú á vefnum Man.is, í eigu Halldórs Kristmannssonar, sem átti Birtíng áður en Sigríður Dagný tók við tímaritaútgáfunni í sumar. Samstarf er um birtingu lífstílsefnis og auglýsingasölu.