Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Milljónum minka lógað vegna COVID

16.10.2020 - 17:00
Lögregla að störfum á minkabúi í Gjoel á dögunum. - Mynd: epa / epa
Danska ríkisstjórnin hefur fyrirskipað að allir minkar verði drepnir á minkabúum þar sem komið hafa upp kórónuveirusmit. Jafnframt verði allir minkar drepnir á búum sem eru í innan við 7,8 kílómetra fjarlægð frá smituðum búum. Gangi þetta eftir eru horfur á að minkum á yfir 200 dönskum loðdýrabúum verði lógað.

Bændur ósáttir

Ef þetta gengur eftir stefnir í mikið blóðbað í dönskum minkabúum. Bitni þetta á 200 búum stefnir í að yfir tveimur og hálfri milljón minka verði lógað. Rösklega eitt þúsund minkabú eru rekin í Danmörku. Þannig að það stefnir í talsverða blóðtöku í greininni. Það kemur ekki á óvart að loðdýrabændur eru langt frá því að vera sáttir. Þeir hafa mótmælt ákvörðun stjórnvalda og boðað hefur verið að farið verði í mál við ríkið.

Smit berist langar leiðir

Bæði vísindamenn við háskólann í Kaupmannahöfn og hjá Smitvarnastofnun ríkisins telja að allt bendi til þess að smit geti borist langar leiðir frá búunum. Það sýni rannsóknir á útbreiðslu fyrstu smitanna á dönskum minkabúum. Smit virðast nú berast hratt milli búa. Tala smitaðra búa er nú komin yfir 90. Flest eru á Norður- Jótlandi.

Nicolas Kükn, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs dönsku matvælastofnunarinnar, segir að miðað við hraðann á útbreiðslu smita verði að bregðast hratt við. Nauðsynlegt sé að drepa dýrin eins fljótt og mögulegt er til að koma í veg fyrir smit berist á milli búa og út í samfélagið. Bæði almannavarnir og danski herinn hafa verið fengin til að aðstoða stjórnvöld.

Hann segir að heilbrigðisyfirvöld viti ekki hvernig smit berist í minkabúin og hver hættan er á að fólk smitist. Smitrakning frá nokkrum búum bendi til þess að minkar hafi smitast af einstaklingum með kórónuveiruna. Hann segir jafnframt ljóst að minkar séu mjög næmir fyrir smiti. Þá sé mikilvægt að þeir sem starfi á búunum noti ýtrustu varnir. Yfirvöld mælast til þess að allir sem starfa á búunum og þeir sem komi þar inn fyrir dyr fari í skimun einu sinni í viku.

Mynd með færslu
Rauði liturinn sýnir hvar smit hafa komið upp

Veiran stökkbreytist

Þá hefur því líka verið haldið fram veiran stökkbreytist í minkum sem verði til þess að erfiðara verði að finna bóluefni sem virki. Prófessor í smitsjúkdómum við danska Ríkisspítalann blæs á þessi rök.

Bændur hafa mótmælt aðgerðum yfirvalda. Þeir telja að ekki sé nægilega mikil rök fyrir þeim. Þegar hefur verið gefin út reglugerð um bætur til loðdýrabænda, bæði þeirra sem reka smituð bú og ósmituð. Í henni er gert ráð fyrir að þeir fái fullar bætur.

Stjórnvöld ofmeta ástandið

En hvernig horfir það sem er að gerast í Danmörku við íslenskum loðdýrabændum? Einar E. Einarsson, formaður Sambands íslenskra loðdýrabænda, segir þetta slæmar fréttir.

„Það er skelfilegt að sjá hvernig þetta gerist og hvernig þetta er að ganga yfir kollega okkar í Danmörku.“

Hann segir að aðgerðir stjórnvalda í Danmörku séu mjög umdeildar. Hans mat er að stjórnvöld séu að ofmeta ástandið. Til að byrja með hafi meginrökin verið að smit gæti borist langar leiðir milli búa.  

„En það hefur enginn, hvorki stjórnvöld eða aðrir getað sýnt fram á að veiran berist nema tvo og upp í hámark fimm metra með loftsmiti. Svo eru menn farnir að tala um það í dag að það sé kannski ekki hættan heldur sé meiri hætta á því að það verði til nýjar arfgerðir á þessum búum sem muni þá hafa neikvæð áhrif á þróun bóluefnis. Nú stíga fram bæði læknar og prófessorar og segja það að það skipti ekki máli því að ef á annað borð tekst að búa til bóluefni gegn veirunni þá nái menn alltaf að laga það að hinum ýmsu arfgerðum,“ segir Einar.

Aðeins níu loðdýrabú á Íslandi

Loðdýrarækt er umfangsmikil búgrein í Danmörku. Þar eru rekin rösklega þúsund bú. Hér á Íslandi hefur búum jafnt og þétt verið fækkað og nú eru þau aðeins níu talsins. Ekkert smit hefur greinst hér. Matvælastofnun hefur gefið út leiðbeiningar og biður loðdýrabændur að fara varlega.

„Ég held að við sem erum í minkarækt hér á Íslandi í dag séum öll að reyna að fara eftir því. Fara varlega, hleypa ekki ókunnungum eða gestum inn í búin. Og ef einhver smitast í fjölskyldum þeirra sem eru í minkarækt hafi menn alla fyrirvara og haldi sig fjarri dýrunum. En það hefur ekki komið upp hingað til.“

Minkar virðast vera næmir fyrir veirunni. Þeir veikjast ekki mikið og mynda móteitur á 10-14 dögum. Þeir virðast jafna sig fljótt aftur. Það er jafnvel talað um að nái ákvörðun stjórnvalda fram að ganga að fullu verði allt að fjórar milljónir minka drepnar. Þannig að það gæti stefnt í mikið blóðbað.

„Ef þessar tölur ganga eftir sem menn eru með í fjölmiðlum í dag þá verður þetta svakaleg blóðtaka. En það er ekki búið að drepa marga minka hingað til. Þegar stjórnvöld fóru af stað fyrir rúmri viku þá var tala um að það þyrfti að drepa um milljón dýr á hundrað búum. Síðan hafa tölurnar hækkað. Aðgerðirnar ganga mjög hægt og þær mæta mikilli andspyrnu. Ég veit ekki hvernig þetta á eftir að þróast,“ segir Einar.