Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lögregla rannsakar iPhone og símanúmer vegna hópárásar

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu megi rannsaka iPhone-síma í tengslum við hópárás um miðjan síðasta mánuð. Grunur leikur á að hópur hafi ruðst inn á heimili manns og lamið hann með kúbeini og öðrum verkfærum. Þá staðfesti Landsréttur einnig að fjarskiptafyrirtæki ættu að veita upplýsingar um hvaða símanúmer hér á landi og erlendis hefðu verið í sambandi við tiltekið símanúmer og önnur númer sem sakborninur hefði haft til umráða.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að lögreglan hafi til rannsóknar stórfellda líkamsárás. Meðal grunaðra í málinu sé kona sem var handtekin daginn eftir árásina ásamt öðrum sem er talin tengjast málinu. 

Fram kemur í greinargerð lögreglu að fyrir liggi vitnisburður að á vettvangi hafi verið ung kona í dökkri hettupeysu með tóbaksklút eða grímu fyrir andlitinu. Þessi lýsing svari til klæðaburðar konunnar þegar hún var handtekin. Þá mátt jafnframt greina blóð á hendi hennar.

Við rannsókn lögreglu var einnig lagt hald á bíl þar sem áðurnefndur iPhone-sími fannst. Konan hafi staðfest að þetta væri síminn hennar en neitar að hafa tekið þátt í árásinni og hefur hafnað beiðni lögreglunnar um aðgang að efnisinnihaldi símans.

Lögreglan telur ríka hagsmuni felast í því að afla frekari upplýsinga um staðsetningu og símanotkun konunnar og efnisinnihald símans sem kunni að geyma gögn og upplýsingar um ferðir henna og samskipti við grunaða samverkamenn. Umbeðnar upplýsingar geti skipt miklu máli fyrir rannsókn málsins. 

Landsréttur staðfesti sömuleiðis annan úrskurð héraðsdóms um að fjarskiptafyrirtækjum væri skylt að veita lögreglunni upplýsingar um hvaða símanúmer hér á landi og erlendis hefði verið í sambandi við ákveðið símanúmer konunnar og önnur númer sem hún hefði haft til umráða á ákveðnu tímabili.  Lögreglan vill einnig fá uppslýsingar um sms-skeyti og samtöl við talhólf konunnar sem og netnotkun hennar í gegnum símtæki.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV