Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Landsréttur staðfestir að hóteleigandi fær engar bætur

16.10.2020 - 16:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Gísli Einarsson
Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að eigandi hótels Ljósalands í Dalabyggð, sem skemmdist í miklum bruna fyrir fjórum árum, fái tjónið ekki bætt hjá Tryggingamiðstöðinni. Ekki væri óvarlegt að telja sannað að maðurinn hefði orðið valdur að eldsupptökunum sjálfur.

Eldur kviknaði í húsnæði hótels Ljósalands í Dalabyggð í janúar árið 2016. Stór hluti gistihúss sem var í byggingu brann og eldur kom upp í vörugeymslu þar sem borð og hillur brunnu. 

Hóteleigandinn lá sjálfur undir grun um að hafa kveikt eldinn en rannsókn málsins var hætt þar sem íkveikjan þótti ekki hafa stofnað lífi annars en hans í hættu.

Landsréttur segir í dómi sínum að fyrir liggi að eldur hafi orðið laus í tveimur aðskildum byggingum á svæðinu. Ekkert hafi komið fram sem hnekkir þeirri niðurstöðu lögreglu að líklegast sé að eldur hafi verið borinn að þeim.  Það sé ótrúverðug skýring að kviknað hafi í þeim út frá eldi í arinn, eins og hóteleigandinn hélt fram. 

Lögreglufulltrúi sem gaf skýrslu fyrir héraðsdómi taldi meðal annars útilokað að eldsvoðann mætti rekja til notkunar arinsins.

Landsréttur segir að þegar litið sé til gagna málsins, ástands mannsins, framburðar vitna og atburðarrásar í heild sé „ekki óvarlegt að telja sannað að maðurinn hafi orðið valdur að eldsupptökum í umrætt sinn.“ Engin önnur líkleg eða skynsamleg skýring hafi komið fram um þau.

Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti féll hins vegar niður.