Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landlæknir og samtök launafólks á öndverðum meiði

Mynd með færslu
 Mynd: Wayne Evans - Pexels
Leiðtogar samtaka launafólks og Samband íslenskra sveitarfélaga fagna áformum félags- og barnamálaráðherra um að eyrnamerkja hvoru foreldri sex mánaða fæðingarorlofsrétt. Embætti landlæknis og Ljósmæðrafélag Íslands eru á meðal þeirra sem gagnrýna drög að lagafrumvarpi um fæðingar- og foreldraorlof og hvetja til þess að foreldrum verði veittur meiri sveigjanleiki í orlofstöku en þar er kveðið á um.

Alls hafa 253 umsagnir borist í samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um fæðingar- og foreldraorlof. Langflestir umsagnaraðilar fagna því að með frumvarpinu standi til að lengja samanlagðan rétt foreldra til fæðingarorlofs úr tíu mánuðum í tólf en mjög eru skiptar skoðanir á því hvernig æskilegast sé að skipta réttindunum milli foreldra. 

Samkvæmt drögunum getur hvort foreldri nýtt sex mánuði og heimilt verður að framselja einn mánuð á milli foreldra. Þá leiða umsagnirnar í ljós skýra andstöðu við áform ráðherra um að stytta þann tíma sem foreldrar hafa til að nýta orlofsréttinn úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Ráðherra hefur sagt að frumvarpið kunni vel að taka breytingum.

Landlæknir kallar eftir auknum sveigjanleika í orlofstöku

Félags- og barnamálaráðherra skipaði samstarfshóp í september 2019 sem hafði það hlutverk að endurskoða lög um fæðingar- og foreldraorlof og vinna að frumvarpi þess efnis. Í starfshópnum áttu sæti fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, tveimur ráðuneytum, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun.  

Í umsögn frá Embætti landlæknis segir að athygli veki að enginn fulltrúi með sérþekkingu á geðheilsu og þroska ungra barna hafi átt sæti í starfshópnum. Embættið kallar eftir því að foreldrar hafi meiri sveigjanleika í skiptingu orlofsins og leggur áherslu á mikilvægi þess að taka mið af ólíkum aðstæðum fjölskyldna. 

Embættið telur æskilegt að foreldrum sé tryggður sveigjanleiki í skiptingu mánaða sambærilegum þeim sem gilti þegar fæðingarorlof var níu mánuðir: „Þannig að fjórir mánuðir fari til móður eða fæðandi foreldris, fjórir til hins foreldrisins og fjórum mánuðum geti foreldrar ráðstafað eins og hentar best þörfum barnsins og aðstæðum fjölskyldunnar.“ 

Að auki bendir embættið á mikilvægi þess að börn sem eru einungis í umsjá eins foreldris fái sama mánaðafjölda í orlofi og önnur börn. „Að öðrum kosti skapa lögin ójöfnuð milli barna sem er ekki réttlætanlegur,“ segir í umsögninni.  

Jöfn skipting ekki í samræmi við leiðbeiningar WHO 

Ljósmæðrafélag Íslands lýsir að sama skapi áhyggjum af fyrirhugaðri jafnri skiptingu orlofsins og leggur til að rétturinn verði framseljanlegur að nokkru eða öllu leyti milli foreldra. Í umsögn um frumvarpið bendir félagið á að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Embætti landlæknis hvetji til þess að börn séu á brjósti í allt að tvö ár og að fæðingarorlof ætti að vera í samræmi við þær leiðbeiningar. „Ekki er samræmi í því að hvetja til 6 mánaða brjóstagjafar eingöngu og brjóstagjafar í að minnsta kosti ár samhliða fastri fæðu og að móðir byrji að vinna eftir 6 mánuði.“  

Þá segir að vegna þess álags sem fylgi brjóstagjöf megi gera ráð fyrir því að mæður með börn á brjósti verði lengur heima án tekna, dreifi orlofinu eða taki að sér hlutastarf eftir að orlofi ljúki. Taka verði með í reikninginn tilheyrandi áhrif á ráðstöfunartekjur mæðra og lífeyrisréttindi. 

Ljósmæðrafélagið hvetur einnig til þess að hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar til að koma í veg fyrir að tekjuhærra foreldrið nýti ekki orlofsréttinn. Þá er enn og aftur bent á mikilvægi þess að börn sem eru alin upp af einu foreldri fái jafnlangan tíma með foreldri og önnur börn og lagt til að foreldri sem eitt hefur umsjá með barni geti framselt hluta réttarins til einhvers nákomins, til dæmis ömmu eða afa barnsins.  

Telja þarfir barna ekki í forgrunni með jafnri skiptingu

Í yfirlýsingu sem Barnaheill, Geðverndarfélag Íslands og Fjölskyldufræðingafélag Íslands sendu frá sér í gær kemur fram að félögin telji „ámælisvert“ að ráðherrann hafi skipað starfshópinn eingöngu af fulltrúum vinnumarkaðarins, frá ráðuneytum og Vinnumálastofnun, og að enginn með sérþekkingu á þörfum barna hafi verið skipaður í hópinn.

Því virðist ekki hafa „staðið til að setja þarfir barna í forgrunn heldur að líta á fæðingarorlof fyrst og fremst sem vinnumarkaðsúrræði til að ná fram öðrum markmiðum en velferð barna“. Að mati félaganna þriggja skal hvert barn fá 12 mánaða sjálfstæðan rétt til orlofs með foreldri sínu eða foreldrum. Rétt eins og Landlæknir og Ljósmæðrafélagið gagnrýna félögin sérstaklega að börn sem aðeins eru í umsjá eins foreldris fái aðeins sjö mánuði með foreldri í stað tólf mánaða eins og önnur börn.  

Stjórnarþingmaður segir jafna skiptingu skerða frelsi fjölskyldna 

Í grein á vef Sjálfstæðisflokksins segir Vilhjálmur Árnason þingmaður flokksins með ólíkindum að félagsmálaráðherra hafi komist að þeirri niðurstöðu að skipta orlofstöku jafnt á milli foreldra. „Með þess­um til­lög­um er búið að skerða frelsi fjöl­skyld­unn­ar al­gjör­lega og draga úr mögu­leik­um hverr­ar fjöl­skyldu til að bregðast við aðstæðum hverju sinni svo hægt sé að mæta þörf­um og hag barns­ins,“ skrifar hann. Með því að úthluta mánuðum með þessum hætti aukist líkurnar á því að hluti réttindanna verði ekki nýttur.  

Með svipuðum rökum hafa þingmenn Miðflokksins lagt fram tillögu til þingsályktunar um að foreldrum verði tryggður sameiginlegur réttur til tólf mánaða fæðingarorlofs sem þeir skipti með sér á 24 mánaða tímabili eftir eigin hentisemi. 

Mikilvægt að breyta viðhorfi um lengra orlof kvenna 

Leiðtogar samtaka launafólks, þær Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, skrifuðu sameiginlega grein í Morgunblaðið í gær þar sem þær lýstu stuðningi sínum við áform félagsmálaráðherra um að orlofinu verði skipt jafnt milli foreldra og að heimilt verði að framselja einn mánuð.  

„Þetta fyrirkomulag er ekki úr lausu lofti gripið heldur er það byggt á ítarlegum rannsóknum sem hafa sýnt að það er börnum fyrir bestu að njóta umönnunar beggja foreldra á þessu mikilvæga mótunarskeiði. Samvera í fæðingarorlofi leggur grunn að nánum tengslum og samskiptum barna við báða foreldra sína ævilangt og styrkir þannig fjölskyldur og samfélag,“ segir þar.  

Efast um tengingu brjóstagjafar og lengdar fæðingarorlofs 

Þær benda á mikilvægi þess að breyta því viðhorfi sem ríkt hefur á vinnumarkaði um að það sé eðlilegt að konur séu lengur í fæðingarorlofi en karlar. Í greininni segir að fjölmörg dæmi séu um að feður mæti skilningsleysi á vinnumarkaði, vilji þeir taka fæðingarorlof lengur en í þrjá mánuði.  

Í greininni segir að óbirtar niðurstöður úr viðamikilli rannsókn hér á landi sýni að ekki séu tengsl milli þess hvenær mæður fara til vinnu eftir barnsburð og hve lengi börn eru á brjósti. 

Stuðlar að starfsframa kvenna og dregur úr launamun 

„Að jafnaði eru konur fjórum til fimm sinnum lengur frá vinnu en karlar vegna barneigna. Þetta er ein af ástæðum þess að konur hafa lægri laun en karlar og minni möguleika á starfsframa, auk þess sem þær ávinna sér minni lífeyrisréttindi yfir starfsævina en þeir,“ skrifa Drífa, Þórunn og Sonja.  Þá segir í greininni að með því að stuðla að því að barn myndi jafn sterk tengsl við báða foreldra sína megi betur jafna ábyrgð foreldra og gera þeim kleift að sameina atvinnuþátttöku og fjölskyldulíf.  

Jafnari verkaskipting á heimilum

Samband íslenskra sveitarfélaga færir að sama skapi rök fyrir því að jöfn skipting fæðingarorlofs stuðli að jafnrétti innan heimilis og í atvinnulífi. „Með jafnri skiptingu fæðingarorlofs verður verkaskipting kynjanna á heimilinu jafnari sem eykur möguleika beggja foreldra til velgengni á vinnumarkaði,“ segir í umsögn sambandsins.  

Þar segir að með því að tryggja báðum foreldrum aukinn sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs auki frumvarpið líkurnar á því að feður taki orlof. Umönnunarþátttaka feðra hafi ýmis jákvæð áhrif á fjölskyldur og bent er á að rannsóknir hafi sýnt að skilnaðir séu fátíðari í fjölskyldum þar sem feður taka fæðingarorlof.  

Móðir geti gefið barni brjóstamjólk á vinnutíma 

Samband íslenskra sveitarfélaga kemur einnig inn á ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um að barn nærist eingöngu á brjóstamjólk fyrstu sex mánuðina. Í umsögninni er bent á að samkvæmt drögunum tryggi löggjöfin að allar mæður geti verið heima fyrstu sex mánuðina, og sjö ef hitt foreldrið framselur réttinn. Einnig þurfi að hafa í huga að vinnuréttarlöggjöfin veiti móður ríkulegan rétt til frítíma innan vinnutímans til að gefa barni brjóst eða mjólka sig.  

Réttarbót sem stuðlar að bættri stöðu kvenna 

Umsagnir Kvenréttindafélags Íslands og Félags kvenna í atvinnulífinu eru í samræmi við álit verkalýðsleiðtoganna þriggja og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Kvenréttindafélagið fagnar því sérstaklega að í frumvarpinu sé orlofinu skipt jafnt á milli foreldra: „Réttarbót sem mun stuðla að bættri stöðu kvenna og auknu kynjajafnrétti hér á landi.“ 

Leggjast gegn því að tíminn til að nýta réttinn verði styttur

Allir þeir umsagnaraðilar sem nefndir eru hér að ofan hvetja félagsmálaráðherra til að endurskoða áform um að stytta þann tíma sem foreldrar hafa kost á að nýta fæðingarorlofsréttinn úr 24 mánuðum í 18 mánuði. Því til stuðnings vísa þeir ýmist í mikilvægi þess að tryggja foreldrum þann sveigjanleika sem fylgir því að geta skipulagt orlofstökuna eða benda á þann mikla fjölda barna sem fær ekki leikskólapláss fyrr en við tveggja ára aldur. Í drögunum segir að markmiðið með styttingunni sé „að foreldrar nýti orlofið fyrstu mánuðina í lífi barns þegar það þarf á mikilli umönnun foreldra að halda“.