Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kortavelta eykst þrátt fyrir fjölgun smita

16.10.2020 - 11:39
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Kortavelta landsmanna innanlands jókst í september og var meiri en í september á síðasta ári. Í nýrri Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans segir að fjölgun kórónuveirusmita virðist ekki hafa haft mikil áhrif á neysluvenjur fólks.

Kortavelta tengd verslun og þjónustu innanlands í september nam 69 milljörðum króna og jókst um 7 prósent milli ára á föstu verðlagi. Í Hagsjánni segir að í ágúst hafi veltan aukist um 2 prósent frá því á síðasta ári sem var minni aukning en mánuðina á undan: „Önnur bylgja Covid-19-faraldursins virðist því hafa haft einhver áhrif á neysluvenjur ágústmánaðar, en þau áhrif svo fjarað út þegar leið á september, þrátt fyrir talsverða fjölgun smita þegar leið á mánuðinn.“

Fréttastofa fjallaði fyrr í vikunni um stóraukna netverslun með matvæli. Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, sagði að sprenging hefði orðið í eftirspurn eftir heimsendingu og Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa, sagði fyrirtækið hafa þurft að bæta við sig starfsfólki vegna fjórföldunar í eftirspurn.

Neysla í útlöndum helmingaðist

Í Hagsjánni segir að síðan í maí, þegar fyrsta bylgja faraldursins var að líða undir lok, hafi mælst stöðug aukning á kortaveltu Íslendinga innanlands samanborið við sama mánuð í fyrra. Það skýrist að einhverju leyti af fáum utanlandsferðum enda bæti fólk upp fyrir minnkaða neyslu erlendis með aukinni neyslu innanlands.

Uppsöfnuð kortavelta ársins er 7,3 prósentum minni en hún var á sama tíma í fyrra en samdráttinn má alfarið rekja til um 44 prósenta samdráttar í veltu erlendis. Kortavelta Íslendinga í útlöndum í september nam tæpum 9 milljörðum, en það er aðeins um helmingur af veltunni í september á síðasta ári. 

Viðskipti tóku við sér á þriðja ársfjórðungi

Kortavelta innanlands jókst eftir því sem tók að líða á árið en hagfræðideildin spáir því að í október megi greina áhrif hertra sóttvarnaaðgerða: „Hversu sterk áhrifin verða og hversu lengi þau vara, á þó eftir að koma í ljós og fer eftir því hversu mikið fólk breytir neysluhegðun sinni,“ segir í Hagsjánni.