Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Íþróttir með snertingu stöðvaðar

Mynd: RÚV / RÚV

Íþróttir með snertingu stöðvaðar

16.10.2020 - 14:24
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi heilbrigðisráðherra, sagði eftir ríkisstjórnarfund í dag að heldur verði skerpt á reglum um íþróttaiðkun á höfuðborgarsvæðinu.

Í grunninn gilda áfram sömu reglur varðandi íþróttaiðkun á höfuðborgarsvæðinu og verður heldur skerpt á. Nú verða tilmæli sóttvarnalæknis frá byrjun október að reglum og munu gilda bæði um inni- og útiíþróttir. Íþróttahreyfingin hefur raunar þegar uppfyllt þessi tilmæli sóttvarnalæknis þótt þau hafi ekki verið fest í reglugerð.

„Í keppni og íþróttastarfi þar sem snerting er fyrir hendi, þar hafa verið tilmæli frá sóttvarnalækni að draga úr því eins og möguleiki er og það er hluti af tillögunum.

- Og það er sumsé áfram?

 - Já,“ sagði Guðmundur Ingi við Höskuld Kára Schram eftir ríkisstjórnarfund í dag.

„Það sem er verið að skoða í þessum tillögum sóttvarnalæknis eru þau tilmæli sem að hann lagði til í liðinni viku varðandi íþróttastarf og það er það sem við erum í rauninni að skoða með honum núna, hvernig nákvæmlega verði útfært. Hann er í rauninni að leggja til að tilmælin verði að reglum og það er það sem við erum að vinna með núna. Líka í samtali við hlutaðeigandi aðila,“ bætti Guðmundur Ingi við.

Hann reiknar með að gefa út auglýsingu um reglugerð um þessi mál á morgun og reglugerðin muni gilda í tvær til þrjár vikur.