Mynd: Sigríður Hagalín Björnsdótt

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Hafa lokið rannsókn á brunanum við Bræðraborgarstíg
16.10.2020 - 16:22
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur lokið við rannsókn á bruna í húsinu á horni Bræðraborgarstígs og Vesturgötu í Reykjavík 25. júní í sumar. Þrír létust í brunanum og karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa valdið dauða þeirra og gert tilraun til að drepa tíu til viðbótar.
Skýrsla um rannsóknina er nú í umsagnarferli sem gæti tekið nokkrar vikur, að sögn Hermanns Jónassonar forstjóra Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Hann segir að gerð skýrslunnar hafi tekið óvenjulangan tíma. „Þetta var tiltölulega flókin rannsókn, bruninn var mjög umfangsmikill,“ segir Hermann.
Í rannsókn stofnunarinnar er sjónum meðal annars beint að því hvort nauðsynlegt sé að breyta regluverki, en fyrsta skoðun leiddi í ljós að breytingar höfðu verið gerðar á húsinu sem ekki hafði fengist byggingarleyfi fyrir og rýrðu þær hugsanlega brunavarnir í húsinu.