
Grunur um riðuveiki í Skagafirði
Bráðabirgðaniðurstaða rannsóknar Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum á sýni úr kind af bænum bendir sterklega til riðuveiki. Endanleg staðfesting liggur fyrir eftir helgi.
Á Stóru-Ökrum er um áttahundrað fjár þar af fimmhundruð fullorðið. Riða hefur ekki komið upp á svæði Tröllaskagahólfs síðan árið 2000. Héraðsdýralæknir vinnur nú að undirbúningi aðgerða og faraldsfræðilegra upplýsinga.
Á vef Matvælastofnunar segir að riðuveiki sé langvinnur og ólæknandi sjúkdómur í sauðfé sem valdi svampkenndum hrörnunarskemmdum í heila og mænu. Próteinið Príon veldur sjúkdómnum en hvorki baktería né veira.
Fyrstu þekktu dæmi um riðuveiki í sauðfé eru frá því á átjándu öld í Bretlandi. Algengast sé að einkenni komi fram í kindum á aldrinum eins og hálfs til fimm ára. Þær geti verið einkennalausar um langa hríð en stundum leiði veikin kindur til dauða á fáum vikum eða minna.
Engin lækning er til við riðuveiki en smitefni virðist geta lifað í umhverfinu í meira en áratug og komið oftar en einu sinni upp á hverjum bæ. Komi upp riða er brugðið á það ráð að lóga öllum dýrum á viðkomandi bæ og nálægum þar sem dýr gætu hafa sýkst.