Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Góð landkynning að leyfa fólki að sjá þessa snillinga

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

Góð landkynning að leyfa fólki að sjá þessa snillinga

16.10.2020 - 16:10

Höfundar

Þegar hert var á samkomutakmörkunum í lok sumars varð ljóst að ekki yrði hægt að halda Iceland Airwaves með eðlilegum hætti. Aðstandendur hátíðarinnar ákváðu að finna nýja lausn og bjóða því upp á nýja streymishátíð með mörgum af vinsælustu hljómsveitum landsins.

Tónlistarhátíðin Live from Reykjavík verður haldin 13.-14. nóvember. Hún verður með sérstöku sniðu þar sem allir tónleikar hennar eru teknir upp og þeir svo sýndir í miðlum RÚV. Ísleifur Þórhallson er framkvæmdastjóri Iceland Airwaves og í viðtali við Síðdegisútvarpið útskýrði hann ferlið sem fór af stað þegar ljóst var að ekki yrði hægt að halda Iceland Airwaves með hefðbundnum hætti í ár. „Við sáum það bara eftir verslunarmannahelgi þegar það komu harðar aðgerðir fyrirvaralaust að við gætum ekki haldið Airwaves og þurftum að hugsa í nýjum lausnum,” segir Ísleifur.

Hann segir starfsfólk hátíðarinnar hafa kynnt sér hvernig streymishátíð gæti farið fram og útskýrt nýtt fyrirkomulag fyrir samstarfsaðilum og tónlistarfólki. Upptökur á tónleikum hátíðarinnar eru þegar farnar af stað og var Ísleifur einmitt á Iðnó þegar að Síðdegisútvarpið talaði við hann. „Það er mikil gleði hérna í húsinu, allt þetta fólk á sameiginlegt að hafa ekki gert neitt síðan í mars nema að færa og aflýsa. Nú er bara allt í einu verið að gera tónleika þannig að þetta er mjög gaman,” segir Ísleifur. Hann nefnir að það sé ekki bara tónlistarfólkið sjálft sem sé búið að vera tekjulaust að undanförnu heldur einnig allir þeir sem starfa í kringum iðnaðinn. Ísleifur segir að hátíðin skapi fjölmörg störf og það sé afar jákvætt að svo margir geti fengið vinnu við tónleikana og upptökurnar. 

Íslendingar fá allir aðgang að hátíðinni í gegnum RÚV en erlendis verður aðgangur að streymi hátíðarinnar seldur í gegnum vefsíðuna Dice.fm. „Þetta verður í leiðinni nokkuð góð landkynning býst ég við. Íslensk tónlist er talin vera hálfgert furðubæri út um allan heim. Það skilur engin í því hvernig við framleiðum stanslaust öll þessi bönd sem slá í gegn erlendis með rúmlega 300.000 manns á landinu. Það er góð landkynning í þessu ástandi að leyfa fólki að sjá alla þessa snillinga koma fram,” segir Ísleifur. 

Nánar var rætt við Ísleif í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. 

Tengdar fréttir

Tónlist

„Mjög gott fyrir sálina að telja í og spila“

Airwaves

Stafræn tónlistarveisla í stað Iceland Airwaves í ár