Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gera listamönnum kleift að sækja um tekjufallsstyrki

16.10.2020 - 15:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra kynntu í dag, ásamt fulltrúum Bandalags háskólamanna og Bandalags íslenskra listamanna, tíu stuðningsaðgerðir fyrir listir og menningu vegna kórónuveirufaraldursins.

Meðal annars er listamönnum og menningartengdum fyrirtækjum gert kleift að sækja um rekstrarstyrki til að mæta tekjusamdrætti. Stjórnvöld gera ráð fyrir að verja um fjórtán milljörðum króna í úrræðið.

Átta af hverjum tíu listamönnum á Íslandi hafa orðið fyrir tekjufalli í faraldrinum, samkvæmt niðurstöðum könnunar BHM sem náði til 1.700 listamanna. Um helmingur þátttakenda hafði misst meira en 50 prósent tekna sinna á milli ára og um fimmtungur hefur orðið af 75 til hundrað prósent tekna. Meirihluti þeirra sem svaraði segir tekjur sínar ekki duga til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar.

Aðgerðirnar sem kynntar voru í dag eiga að bæta stöðu starfandi listamanna og menningartengdra fyrirtækja. Auk tekjufallsstyrkjanna verður tímabundin hækkun starfslauna og styrkja fyrir árið 2021, og tímamörk verkefnastyrkja til menningarmála, framlengd. 

Einnig stendur til að setja af stað vitundarvakningu um mikilvægi lista og menningar hér á landi. Þá á að stofna Sviðslistarmiðstöð og Tónlistarmiðstöð.