Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Framboð Guðmundar þrefalt dýrara en framboð Guðna

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Forsetaframboð Guðmundar Franklíns Jónssonar í sumar kostaði rúmlega 4,6 milljónir, sem er rúmlega þrisvar sinnum meira en framboð Guðna Th. Jóhannessonar sitjandi forseta sem kostaði um 1,5 milljón.

Rekstrarreikningar beggja framboðanna eru birtir á vef Ríkisendurskoðunar.

Þar kemur fram að framboð Guðmundar Franklíns kostaði 4.650.331 krónu. Þar af lagði Guðmundur Franklín sjálfur til um 1.648.000 krónur, framlög lögaðila voru 1.190.000 krónur og frá einstaklingum bárust framlög upp á 1.812.600 krónur. Stærsta einstaka framlagið, 300.000 krónur, kom frá útgerðarfyrirtækinu Hólma ehf og 200.000 króna framlög bárust frá Sælgætisgerðinni Góu/Lindu, KFC, Erik the red Seafood og Bakarameistaranum. Þá bárust framlög lægri en 400.000 frá 73 einstaklingum.

Guðmundur Franklín varði rúmlega 3,5 milljónum í auglýsingar og um 822.000 í fundi og ferðakostnað.

Framboð Guðna kostaði 1.516.082 krónur. Þar af var ferðakostnaður um 513.000. Engu fé var varið í auglýsingar. Rúmlega 612.000 króna afgangur varð af rekstrarfé framboðsins.

Framlög lögaðila til framboðs Guðna námu samtals 523.000 krónum. Sá hæsti var 200.000 og kom frá KBK Eignum ehf. Þá fékk framboð Guðna framlög sem voru undir 300.000 krónum frá samtals 37 einstaklingum sem samtals námu 1.605.999 krónum.

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir