Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórði hver nýskráður fólksbíll er rafdrifinn

16.10.2020 - 15:19
Mælaborð í bíl.
 Mynd: naeem mayet - Freeimages
Nýskráðir hreinir rafmagnsfólksbílar eru 1.812 það sem af er árinu eða tæp 25% að sögn Óðins Valdimarssonar verkefnastjóra hjá Bílgreinasambandinu. Það eru fólksbílar sem bílaleigur, almenningur og almenn fyrirtæki hafa keypt.

Óðinn segir líklegt að hefðu bílaleigur keypt jafnmarga bíla á þessu ári og áður hefði það að uppistöðu verið bensín- og dísilbílar. Hann telur þó sennilegt að leigurnar hefðu keypt eitthvað af tengiltvinn- og rafmagnsbílum.

„Það hefur hraðað hlutfallsþróuninni núna í ár, þ.e. hvað nýorkubílar telja rosalega mikið,“ segir Óðinn sem metur einsýnt að engu að síður hefði orðið mikið stökk í sölu rafmagnsbíla. Hlutfall nýskráðra rafdrifinna fólksbifreiða á síðasta ári var 7,8%.

Mikill viðsnúningur hefur orðið á skráningu bifreiða sem ganga eingöngu fyrir bensíni en á þessu ári eru þær um fjórðungur nýskráðra en voru rúmlega 42% í fyrra.

Um 21% nýskráðra bifreiða ganga fyrir dísli eingöngu en hlutfallið var um 30% í fyrra. Aðrir nýskráðir fólksbílar eru svokallaðir tengiltvinnbílar, blendingar, metan- og vetnisbílar.

Fólksbifreiðar í umferð á Íslandi eru rúmlega 221 þúsund. Af því eru Toyota-bifreiðar tæplega 58 þúsund. Ford og VW eru í öðru og þriðja sæti með í kringum 20 þúsund hvor tegund.

„Áhugavert er að sjá skiptingu milli tegunda líka, en þar sést að Tesla hefur komið sterk inn á árinu,“ segir Óðinn hjá Bílgreinasambandinu. Á vef Samgöngustofu segir að það sem af er ári hafi alls 8.648 nýjar fólksbifreiðar verið skráðar á Íslandi. Toyota er líkt og fyrri ár mest selda tegundin með 1267 bíla.

Tesla er nú í öðru sæti en 794 nýir bílar af þeirri tegund hafa verið skráðir á þessu ári en 2019 voru sjötíu Tesla-bifreiðar skráðar. Mest selda undirgerð ársins er einmitt Tesla Model 3 en 694 slíkar bifreiðar hafa verið skráðar.