Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fimm fönkí fyrir tæpa tónlistarunnendur

Mynd með færslu
 Mynd: Green United Music - Woodkid

Fimm fönkí fyrir tæpa tónlistarunnendur

16.10.2020 - 11:50

Höfundar

Að venju er fjölbreytnin í fyrirrúmi í fimmunni og að þessu sinni er boðið upp á rave-slagara í rólegri kantinum, dísætar apríkósur, feitar fönkslummur og endað á smá sjálfsvorkunn – það má ekki gleyma henni.

Tiga og Hudson Mohawk – Velvet Sky of Dreams

Tiga og Hudson Mohawk eru að verða hoknir af reynslu í bransanum og fá Abra með til að syngja nýja lagið sitt, Velvet Sky of Dreams. Hér er horft til fortíðar eftir innblæstri sem gefur ágætis rave-slagara í rólegri kantinum sem hefði kannski getað heyrst á flauelsklæddum kósí klúbbi í kringum '90.


Bicep – Apricot

Það muna kannski ekki allir eftir danslaginu Belfast með Boney M en það er líklegt að Matt og Andy í Bicep hafi alist upp við þennan stórkostlega þýska diskósmell sem spurði spurninga um ástandið í heimaborg þeirra á Norður-Írlandi. Nú hafa þeir félagar í norðurírska tvíhöfða gert lag um Apríkósur sem eru nú aðallega ræktaðar á suðrænni slóðum en eru þeim samt ofarlega í huga.


James Vincent McMarrow, Kenny Beats – I Should Go

Yfir í fönkið sem hefur lengi legið vel fyrir Írum og oft talað um Van Morrison sem brautryðjanda í bláeygðu sálartónlistinni. Landi hans, James Vincent McMarrow, hefur líka verið liðtækur í fönkslummum í gegnum tíðina þá hann sé oftast flokkaður sem folk og rokkstjarna. Í laginu I Should Go, sem kom út í lok síðasta mánaðar, fær James bandaríska upptökustjórann Kenny Beats með sér sem er ansi slyngur í taktasmíðinni.


Chet Faker – Low

Næstur er Nick Murphy með fyrsta nýja lagið sitt sem Chet Faker í fjögur ár, það heitir Low er frekar blúsað og fjallar um að missa vonina. Það virðist vera að hitta í mark á fleiri stöðum en í heimalandi Nicks, Ástralíu, sem er kannski ekki skrítið í þessu þunga árferði þar sem íþróttaálfurinn þarf mögulega að taka þunglyndislyf til að nenna að gera æfingarnar sínar.


Woodkid – Horizons Into Battlegrounds

Talandi um þunglyndi þá er hinn franski Woodkid alveg að negla þá stemmningu með nýja laginu sínu, Horizons Into Battleground, sem fyrir COVID hefði verið titill sem fengi mann til að hlaupa eftir næstu rafmagnsskútu og skauta út í buskann. En lagið, sem er að finna á plötu kappans, S16, sem kom út í dag, hittir mann beint í mark í pestinni; megi henni fara að ljúka.


Fimman á Spottanum