Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Enginn upphafskvóti loðnu: Illa gekk að mæla

16.10.2020 - 14:44
Loðna
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Hafrannsóknastofnun treystir sér ekki til að mæla með því að gefinn verði út loðnukvóti fyrir þessa vertíð eftir mælingar á stofninum dagana 7. september til 5. október.

Stærð veiðistofnsins mældist um 344 þúsund tonn en þegar búið er að taka tillit til óvissu, afráns annarra tegunda og fleiri þátta er ekki talið mögulegt að skilja eftir 150 þúsund tonn til hrygningar í mars 2021. Hafrannsóknastofnun mælir veiðistofn loðnu eftir áramót og endurskoðar ráðgjöfina í ljósi þeirra mælinga.

Loðnubrestur varð undanfarnar tvær vertíðir sem olli tekjumissi hjá útgerðum og öðrum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Starfsfólki, sveitarfélögum og ríkissjóði.

Í tilkynningu frá HAFRÓ segir meðal annars: „Niðurstöður leiðangursins byggja á umfangsmikilli yfirferð en tafir vegna veðurs ollu minni yfirferð á jaðarsvæðum. Hafís á norðanverðu rannsóknarsvæðinu hindraði að hluta áætlaða yfirferð þar, en í sumum tilfellum var loðnu að finna í námunda við hafísinn. Því gæti verið um að ræða vanmat á magni kynþroska stofnhlutans, en ekki er unnt að meta umfang þess."

Mælingin nú veldur vonbrigðum því menn voru bjartsýnir á að gefinn yrði út kvóti eins og kemur fram í tilkynningunni: „Þessi ráðgjöf fyrir fiskveiðiárið 2020/2021 kemur í stað ráðgjafar frá 30. nóvember 2019 sem hljóðaði upp á 170 þúsund tonna upphafsaflamark. Sú ráðgjöf byggði á ungloðnumælingum haustið 2019. Þótt sú mæling hafi verið nægjanlega há til að gefa aflamark var óvissan á þeirri mælingu mikil.“