39 er fjöldi sjálfsvíga á síðasta ári

Mynd með færslu
 Mynd: geðhjálp

39 er fjöldi sjálfsvíga á síðasta ári

16.10.2020 - 13:35
Landssamtökin Geðhjálp skora á stjórnvöld og samfélagið allt að setja geðheilsu í forgang. Geðhjálp hefur hafið undirskriftasöfnun í samstarfi við Píeta samtökin. Átakið kallast 39 sem vísar til fjölda sjálfsvíga á síðasta ári. Það er einnig meðaltal sjálfsvíga á ári síðustu tíu ár.

Geðhjálp gaf út blað í tengslum við 39  er hægt að nálgast á vefsíðu Geðhjálpar. Í blaðinu eru miklar upplýsingar um geðheilsu og reynslusögur fólks sem hefur átt í geðrænum veikindum.

Héðinn Unnsteinnsson formaður Geðhjálpar segir að í gegnum árin hafi verið reynt að komast hjá því að nefna fjölda sjálfsvíga. Ákveðið hafi verið að birta hana núna í samráði við Píeta og ástæða þess sé tvíþætt.

„Annars vegar viljum við ræða sjálfsvíg og þann skyndilega missi, sársauka og sorg sem aðstandendur verða fyrir og hins vegar viljum við ræða þá ástæðu sem býr að baki og orsakaþætti geðheilbrigðis. Orsakir sem skipta okkur öll máli og hafa áhrif á líðan okkar. Orsakir sem í okkar „rafmögnuðu“ tilveru eru fjölþættar og þarfnast meiri umræðu en kerfi samtímans leyfa, því þau snúast frekar um einkenni og afleiðingar,“ segir Héðinn Unnsteinsson í blaðinu 39 sem Geðhjálp gaf út í vikunni.

GDRN í Rabbabara Studio 12
 Mynd: Rúv
Söngkonan GDRN

Í blaðinu má einnig lesa reynslusögur fólks, alls kyns fróðleik sem tengist Geðhjálp og hvernig fólk hlúir að geðheilsunni sem dæmi. Söngkonan Guðrún Ýr Eyfjörð sem gengur undir listamannsnafninu GDRN sagði að það skipti hana miklu máli að vera hreinskilin við sig sjálfa og fólkið í kringum hana um það hvernig henni líður.

„Ekki fela eða birgja það inni þegar það er erfitt og manni líður illa. Við búum í samfélagi þar sem við fáum oft skilaboðin um að við þurfum að vera sterk og fullkomin, en við þurfum að minna okkur á að allir og þar með talið við sjálf erum ófullkomin, við munum gera mistök og við munum vera brothætt á tímum. Þá er mikilvægt að tala við sína nánustu og leita sér hjálpar þegar maður þarf á því að halda og aldrei nokkurn tímann skammast sín fyrir það, því það er ekkert sem sýnir meiri styrkleika en þegar maður tekur skrefið til að fá viðeigandi hjálp,“ segir Guðrún Ýr Eyfjörð.

Fólk með sjálfsvígshugsanir er minnt á 1717 sem er hjálparsími og netspjall Rauða krossins. Einnig er hægt að leita til Píeta samtakanna allan sólarhringinn í síma 552-2218.