Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

24 þingmenn vilja þjóðaratkvæði um framtíð flugvallar

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
24 þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að efnt skuli til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar.

Til­lag­an er flutt af Njáli Trausta Friðberts­syni þingmanni Sjálfstæðisflokks og 23 öðrum þing­mönn­um úr fjór­um þing­flokk­um. Samskonar tillaga hefur verið lögð fimm sinnum áður, seinast á síðasta löggjafarþingi.

Núverandi tillaga felur í sér að í þjóðar­at­kvæðagreiðslu verði spurt hvort kjósendur vilji að flugvöllur og miðstöð innanlands-, kennslu- og sjúkraflugs verði áfram í Vatnsmýrinni í Reykjavík uns annar jafngóður eða betri kostur verði tilbúinn til notkunar.

Í greinargerð með tillögunni segir að ríkir almannahagsmunir felist í greiðum samgöngum innan lands og staðsetning flugvallarins hafi mikla þýðingu í því samhengi.

Jafnframt er öryggishlutverk flugvallarins áréttað en fyrir liggi að flugvöllurinn lokist í reynd þegar norður-suður-brautinni verði lokað líkt og Reykjavíkurborg stefni að árið 2022.

Brýnt sé að þjóðin fái að segja hug sinn varðandi flugvöllinn enda sé hann miðstöð innanlandsflugs og mikilvægur til að tryggja aðgengi almennings á landsbyggðinni að hátæknisjúkrahúsinu við Hringbraut.

Í greinargerðinni er vísað þess að umhverfis- og samgöngunefnd þingsins sendi tillöguna til umfjöllunar eftir 149. löggjafarþing sem lauk vorið 2019. Þá hafi Reykjavíkurborg ein verið mótfallin þjóðaratkvæðagreiðslu en 21 umsögn hafi borist.

Yfirgnæfandi meirihluti sveitarfélaga og samtök þeirra hafi verið  fylgjandi því að framtíð flugvallarins yrði lögð í dóm þjóðarinnar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV