Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Viðauki við aðalskipulag Reykjavíkur fyrir borgarráð

15.10.2020 - 23:34
Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Borgarráð fjallað á fundi sínum í dag um drög að breyttu aðalskipulagi fyrir Reykjavíkurborg til ársins 2040. Fulltrúar minnihluta borgarráðs gagnrýna áformin og segja skorta hagstætt byggingarland og að ekki sé minnst á Sundabraut í tillögunum. Þá er það gagnrýnt að leggja eigi hraðbraut þvert á Vetnsendahvarf.

Í viðaukanum við aðalskipulagið er skipulagstímabilið framlengt um 10 ár eða til ársins 2040. Helsta breytingin er sögð fela í sér breytta stefnu um íbúðabyggð. Aðalskipulag frá árinu 2014 haldi sér í meginatriðum. 

Helstu breytingar í viðaukanum eru:

 • Markmið og forsendur um íbúaþróun og fjölgun starfa uppfærðar og miðaðar við 2040. Skipulagstímabilið lengt til 2040.
 • Stefna um íbúðarbyggð endurskoðuð í heild sinni, uppfærð og sett fram á nýjan hátt og samtvinnuð húsnæðisstefnu.
 • Skýrari markmið og viðmið um staðsetningu, þéttleika og yfirbragð íbúðarbyggðar.
 • Auknar kröfur um gæði íbúðarbyggðar og almenningsrýma.
 • Skipulag Ártúnshöfða sett fram í samræmi við rammaskipulag og yfirstandandi deiliskipulagsvinnu.
 • Nýjar tímasetningar varðandi landnotkun í Vatnsmýri.
 • Borgarlínan fest niður og lykilstöðvar hennar. 
 • Breyttar skilgreiningar stofnbrauta. Nýr stokkur skilgreindur fyrir Sæbraut og skerpt á stefnu um stokk fyrir Miklubraut.
 • Stefna um byggingarmagn og skilgreining landnotkunar á einstökum atvinnusvæðum endurskoðuð.
 • Ný megin markmið og skipulagsákvæði sett fram varðandi breyttar ferðavenjur, loftslagsmál, húsnæðisstefnu, kaupmanninn á horninu og hæðir húsa.
 • Byggðaþróun til 2040 takmarkist við núverandi vaxtarmörk.

 Fulltrúar meirihlutans, Samfylkingarinnar,Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna segja í bókun sinni að verið sé að skerpa á sýn borgarinnar til ársins 2040. Borgarlína sé fest í sessi ásamt lykilstöðvum hennar. Ábyrgðarhlutverk borgarinnar í loftslagsmálum sé mikið og með breytingu á aðalskipulagi séu stór skref stigin í átt að sjálfbærni, kolefnishlutleysi og bættum lífsgæðum fyrir borgarbúa. Stutt sé við markmið Parísarsáttmálans. Reykjavík verði áfram í forystu þegar kemur að húsnæðisuppbyggingu og stefnt er að uppbyggingu um 1000 íbúða á ári.

Eyþór Arnalds, Hildur Björnsdóttir og Valgerður Sigurðardóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokks í borgarráði lögðu fram bókun þar sem segir meðal annars:

„Í drögum að tillögu um breytingar á aðalskipulagi, „Nýr viðauki“, skortir á að nægt framboð af hagstæðu byggingarlandi sé tryggt. Uppsafnaður skortur á íbúðum fer vaxandi miðað við nýjustu upplýsingar Samtaka iðnaðarins og er nauðsynlegt að borgin bjóði upp á fjölbreytta og hagkvæma valkosti. Í því sambandi væri nærtækt að heimila uppbyggingu á Keldum innan fimm ára, eða frá 2025.“ 

Vigdís Hauksdóttir, áheyrnarfulltrúi Miðflokksins í ráðinu  segir margt jákvætt í tillögunum, en annað ekki 

„Ekki er minnst á Sundabraut í tillögunum. Eins virðist það afdráttarlaus stefna að flugvöllurinn víki úr Vatnsmýrinni þrátt fyrir að ekki er komin niðurstaða starfshóps um könnun á flugvallarkosti í Hvassahrauni. Gengið er mjög á græn svæði. Athyglisvert verður að sjá viðbrögð almennings og hagsmunaaðila við þessum tillögum að kynningu lokinni.“ segir í bókun hennar.

Kolbrún Baldursdóttir,áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins segir að vegur yfir Vatnsefndahvarf eigi eftir að valda tjóni.

„Eitt stærsta málið er að leggja á hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf sem eyðileggja mun eitt helsta náttúrulífs- og útsýnissvæði Reykjavíkur. Þetta stríðir gegn einu af leiðarljósum sem kynnt eru í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 en þar segir „að ekki verði gengið á svæði sem hafa hátt náttúru- og/eða útivistargildi“.“ segir í bókun hennar.

Hún gagnrýnir að fólki sé þrýst í Borgarlínu og að orkuskipti gangi ekki nægilega hratt.

„Skipulagsyfirvöld virðast ekki hafa mikinn áhuga á að flýta orkuskiptum. Ekki er minnst á vistvænan, innlendan orkugjafa, metan, sem gnótt er af, svo mikið að honum þarf að brenna. Síðast en ekki síst þarf að fjölga atvinnutækifærum til muna í öllum hverfum.“ segir í bókun hennar.