Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vel heppnaðri síldarvertíð að ljúka

15.10.2020 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veiðum íslenskra skipa á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum er nú rétt að ljúka. Vertíðin hefur verið afar góð og síldin haldið sig mun lengur við landið en oft áður.  

Siggeir Stefánsson, framleiðslustjóri hjá Ísfélaginu á Þórshöfn, segir að þar hafi vertíðin gengið einstaklega vel. „Það hefur verið stutt að fara, gott veður, góð veiði, góð síld. Þannig að það hefur allt lagst með okkur."

Mestöll veiðin stutt úti af Austfjörðum

Á Þórshöfn hófst síldarvertíðin 12. september og hefur verið nær samfelld vinnsla síðan. Ólíkt síðustu vertíð, þegar sækja þurfti í Síldarsmuguna langt austur í haf, hefur síldarflotinn á þessari vertíð veitt nánast á sama svæðinu stutt úti af Austfjörðum. „Þetta gerir gæfumuninn að geta sótt hana hérna bara einhverja sjö til tíu tíma frá okkur," segir Siggeir. 

Ávísun á góða afkomu

Þetta skipti líka máli varðandi afkomuna. Í styttri veiðiferðum sé kostnaður útgerðarinnar minni og mjög gott hráefni hafi komið í land alla vertíðina. „Já, þetta ætti nú að vera ávísun á það. Þetta hefur gengið einstaklega vel, þannig að það skilar sér."

Virðist meira af síld við landið en verið hefur

Norsk-íslenska síldin hefur því dvalið mun lengur við landið núna en síðustu ár og umræðan um aukna síldveiði verður því háværari. Siggeir bendir á að við rannsóknir fyrr á árinu hafi fundist meiri norsk-íslensk síld en áður og sjómenn við landið segist sjá mun meiri síld en hingað til, bæði norður og austur af landinu. „Þannig að það virðist nú bara vera mun meira af síld við Ísland heldur en hefur verið."